ÍBV vann í dag magnaðan 5-4 sigur á Þór/Ka í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Leikið var í Eyjum.
Gestirnir leiddu 3-0 eftir tæpan hálftíma leik. Sandra María Jessen skoraði fyrsta og annað markið eftir tvær góðar skyndisóknir og Tiffany Janea McCarty bætti við þriðja markinu á 29. mínútu.
ÍBV minnkaði muninn í 3-2 með mörkum á síðustu fjórum mínútum fyrri hálfleiks. Ragna Sara Magnúsdóttir jafnaði svo metin á 52. mínútu og staðan 3-3 en Þór/KA komst aftur í forystu á 70. mínútu með öðru marki Tiffany McCarty í leiknum.
Saga Líf Sigurðardóttir sem hafði lagt upp tvö mörk fyrir gestina í fyrri hálfleik fékk beint rautt spjald á 75. mínútu og Þór/Ka manni færri. Það tók heimakonur ekki langan tíma að jafna en Hanna Kallmaier gerði það með þrumuskoti tveimur mínútum síðar.
Selma Björt Sigursveinsdóttir tryggði ÍBV sigurinn með marki á lokamínútu leiksins og lokatölur 5-4.
ÍBV fer upp í fjórða sæti. Liðið er með 10 stig eftir sex leiki. Þór/KA er áfram í 8. sæti með sex stig.