Lögreglan ætlar ekkert að aðhafast í máli Patrick Vieira, knattspyrnustjóra Crystal Palace, eftir að hann lenti í útistöðum við stuðningsmann eftir 3-2 tap liðsins gegn Everton síðastliðinn fimmtudag.
Fjöldi stuðningsmanna hljóp inn á völlinn í lok leiks eftir 3-2 endurkomusigur Everton. Vieira virtist sparka í stuðningsmann eftir að hafa verið hæddur af honum.
„Lögreglan hefur rætt við báða aðila og þeir hafnað tækifærinu til að bera fram formlega kvörtun eða kæru,“ segir í yfirlýsingu lögreglu.
Lögreglan á Merseyside-svæðinu vann með Everton í að „safna saman öllu myndefni úr öryggismyndavélum ásamt því að ræða við vitni.“ Stuðningsmaðurinn fékk einnig áminningu frá félaginu um hegðun sína.
Atvikið var eitt af mörgum í vikunni þar sem stuðningsmenn ruddust inn á völlinm. Robert Biggs, stuðningsmaður Nottingham Forest, fékk 24 vikna fangelsisdóm fyrir að skalla Billy Sharp, leikmann Sheffield United, eftir að stuðningsmenn Nottingham Forest höfðu ráðist inn á völlinn til að fagna sigri sinna manna á Sharp og félögum.
Enska úrvalsdeildin hefur þegar haldið neyðarfund þar sem ákveðið var að félög þyrftu að manna leiki sína með öryggisvörðum sem eru sérbúnir til að takast á við það þegar fólk hleypur inn á völlinn.