Liam Gallagher, söngvari Oasis, og Jamie Carragher, sparkspekingur og Liverpool-goðsögn, áttu í orðaskiptum á samfélagsmiðlum í gær.
Gallagher er harður stuðningsmaður Manchester City og fagnaði hann því Englandsmeistaratitli í gær eftir dramatískan sigur á Aston Villa.
Liverpool kláraði sinn leik gegn Wolves á meðan en endar tímabilið stigi á eftir City.
Gallagher ákvað að gera grín að Carragher og skrifaði „hvað ertu að segja fíflið þitt?“ Carragher var ekki lengi að svara fyrir sig og sagði „Ég er að segja að þið munuð aldrei vinna Meistaradeildina og að Oasis sé drasl miðað við Bítlana.“
Liverpool mun leika í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Real Madrid um næstu helgi en Manchester City hefur aldrei unnið keppnina.