Miðvörðurinn William Saliba vill ganga endanlega til liðs við Marseille frá Arsenal. Þetta segir á vef RMC Sport.
Saliba gekk í raðir Arsenal sumarið 2019 frá Saint Etienne fyrir 30 milljónir punda, þá aðeins 18 ára gamall.
Frakkinn var lánaður strax aftur til Saint Etienne. Þegar hann kom til baka eftir eina leiktíð þar fékk hann engin tækifæri hjá Arsenal og var lánaður aftur til Frakklands, nú til Nice, þar sem hann lék seinni hluta síðustu leiktíðar. Á þessari leiktíð hefur hann svo verið á láni hjá Marseille og staðið sig frábærlega.
Það er ljóst eftir lokaumferð Ligue 1 í gær að Marseille mun leika í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á næstu leiktíð. Það er eitthvað sem heillar Saliba mikið.
Ekki er líklegt að Arsenal geti veitt leikmanninum Meistaradeildarfótbolta á næstu leiktíð. Til þess þarf liðið að treysta á að Norwich vinni Tottenham, ásamt því að klára sitt verkefni gegn Everton í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar síðar í dag.