Þrír leikir fóru fram í Lengjudeild karla í kvöld.
Selfoss heimsótti Aftureldingu í Mosfellsbæ. Mörkin létu á sér standa allt þar til rúmur stundarfjórðungur var eftir. Þá kom Ingi Rafn Óskarsson gestunum yfir. Það stefndi í góðan útisigur Selfyssinga en á 88. mínútu leiksins jafnaði Ýmir Halldórsson leikinn fyrir Aftureldingu. Lokatölur 1-1.
Selfyssingar eru í öðru sæti með sjö stig. Afturelding er í því tíunda með tvö.
Kórdrengir tóku þá á móti KV. Þórir Rafn Þórisson kom heimamönnum yfir eftir tæpan stundarfjórðung. Skömmu síðar fékk KV vítaspyrnu. Ingólfur Sigurðsson fór á punktinn en honum brást bogalistin. Þórir Rafn innsiglaði svo 2-0 sigur Kórdrengja snemma í seinni hálfleik.
Kórdrengir eru með fjögur stig í sjötta sæti deildarinnar. KV er án stiga í ellefta sæti. Liðið hefur fengið erfiða leiki í byrjun. Það hefur einnig leikið gegn Fylki og HK.
Það var svo dramatík þegar Þór tók á móti Grindavík. Dagur Ingi Hammer Gunnarsson kom Grindvíkingum yfir á 27. mínútu. Staðan var 0-1 fyrir gestina allt þar til seint í uppbótartíma en þá jafnaði Jewook Woo fyrir Þórsara. Lokatölur 1-1. Undir blálokin fékk Thiago í liði gestanna að líta rauða spjaldið fyrir ljóta tæklingu. Þá fékk þjálfari Grindavíkur, Alfreð Elías Jóhannsson, einnig rautt spjald.
Grindavík er með fimm stig í fimmta sæti. Þór er með fjögur stig í sjöunda sæti.