Enn bætist í röð kjarnorkuhótanna rússneskra yfirvalda í garð Vesturlanda. Leiðtogi geimferðastofnunar Rússlands, Dmitri Rogozin, montaði sig á dögunum af nýjasta gjöreyðingavopni í búri Rússlands, RS-28 Sarmat-flauginni. Flaugin getur hæft skotmörk á um 25,7 þúsund kílómetrum á klukkustund, geymt 15 sprengiodda og lagt svæði sjöfalt stærra en Ísland í eyði.
Það athyglisverða er að Rogozin gerði þetta í sjónvarpsþætti fyrir framan mikinn fjölda barna en um er að ræða hluta af nýrri menntunarherferð rússneskra yfirvalda. Herferðin fer undir nafninu Nýir sjóndeildahringir, þar sem ungum börnum er kennt um getu Rússlands í hernaði. The Sun vakti athygli á málinu.
„Hérna sjáiði tilraunaskot flauganna okkar,“ sagði Rogozin í þættinum og sýndi krökkunum myndskeið. „Þær stærstu komast ekki fyrir á Rauða torginu, þar sem þær eru of stórar… slík flaug gæti gjöreyðilagt hálfa strandlengju stórrar heimsálfu, sem okkur líkar kannski ekki vel við vegna árásargirni hennar.“ sagði hann og á þar líklega við Bandaríkin.
Rogozin bætti einnig við að eldflaugin „óstöðvandi“, sem einnig er kölluð Satan-2, gæti öðlast hlutverk í hernaðinum í haust.