Lesandi hafði samband við DV og vakti athygli á því að atriði með Hallbirni Hjartarsyni sveitasöngvara hefði birst í Ríkissjónvarpinu í endursýningu á þáttunum Á tali hjá Hemma Gunn.
Hallbjörn öðlaðist vinsældir fyrir flutning á kúrekatónlist í bandarískum stíl á níunda áratug síðustu aldar. Hann var síðar fundinn sekur um kynferðsbrot gegn börnum, nánar tiltekið gegn tveimur drengjum en annar þeirra var barnabarn hans.
Lesandanum sem hafði samband þykir óviðeigandi að dæmdur kynferðisbrotamaður birtist í þessu samhengi í sjónvarpi allra landsmanna, þ.e. sem atriði í skemmtiþætti. Vekur þetta spurningar um hvort ritskoða eigi gamalt, endursýnt sjónvarpsefni, með tilliti til uppslýsinga af þessu tagi, eða jafnvel vegna breyttra viðhorfa í samtímanum. Sem dæmi þá þótti það ekki tiltökumál fyrir nokkrum áratugum að troða upp á skemmtun með svokallað „svartfés“ (e. Blackface), þ.e. að hvítur maður sverti andlit sitt til að leika svartan mann. Slíkt þykir með öllu ótækt í dag en til er sjónvarpsefni frá tónleikum og skemmtunum sem sýna slíkt.
DV bar málið undir Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóra RÚV, og spurði hvort sýningin á atriði með Hallbirni hefði verið mistök eða meðvituð ákvörðun. Svarið er hvorugt:
„Þetta var hvorki meðvituð ákvörðun né mistök.Við höfum ekki markað okkur þá stefnu þegar kemur að endursýningum eldra efnis að ritskoða, klippa til og/eða fjarlægja viðkvæm viðfangsefni eins og aðila sem síðar hafa fengið dóma fyrir eitt eða annað. Sérstaklega þegar kemur að dagskrárefni sem fjallar ekki beint um viðkomandi heldur annað og meira. En vitanlega gegnir öðru máli þegar kemur að eldra dagskrárefni sem beinlínis er helgað eða fjallar um viðkomandi. Meðhöndlun slíkra tilfella er einfaldlega afar vandmeðfarin og á þeim er ekki nein augljós lausn. Hafandi sagt það sýnum við fullan skilning á því að slíkt efni sem um ræðir, atriði, viðfangsefni og viðmælendur kunni að koma illa við áhorfendur. Það þykir okkur miður, teljum aldrei léttvægt eða óþarfi að ígrunda sérstaklega því við skiljum þau sjónarmið mætavel að slíkt efni ætti mögulega ekki að vera í boði af tillitsemi við þolendur og áhorfendur almennt.“
DV spurði Skarphéðinn ennfremur hvort kvartanir yfir gömlu efni sem er á skjön við siðferðisviðmið samtímans væru algengar. Hann segir svo ekki vera:
„Það hafa að mér vitandi engar kvartanir borist beint til RÚV er snúa að sýningu viðkomandi þáttar og almennt gerist það sárasjaldan að kvartanir berist vegna eldra efnis sem stenst illa skoðun vegna viðmælenda sem síðar hafa hlotið dóma eða viðfangsefnis og efnistaka sem síðar hafa verið endurskoðuð og þykja síður boðleg.“