Sérfræðingar í hlaðvarpinu Dr. Football telja litlar sem engar líkur á því að Aron Einar Gunnarsson gefi kost á sér í íslenska landsliðið í næsta mánuði verði hans starfskrafta óskað.
Aron Einar hefur í tæpt ár ekki verið hluti af íslenska landsliðinu en síðast haust var lögð fram kæra þar sem Aron Einar og Eggert Gunnþór Jónsson voru kærðir fyrir nauðgun. Hérðassaksóknari felldi málið niður í síðustu viku.
Í Fréttablaðinu í vikunni lét Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ hafa eftir sér að Arnar Þór Viðarsson gæti valið Aron Einar í næsta hóp sinn.
Íslenska liðið leikur þrjá leiki í Þjóðadeildinni í júní og einn æfingaleik. „Ég held að það sé ekki séns,“ sagði sérfræðingurinn, Hrafnkell Freyr Ágústsson þegar hann var spurður út í það hvort hann teldi að Aron Einar myndi gefa kost á sér verði hans starfskrafta óskað.
Í framhaldinu töldu þeir Hrafnkell, Albert Brynjar Ingason og Hjörvar Hafliðason að Guðlaugur Victor Pálsson, Alfreð Finnbogason, Jóhann Berg Guðmundsson og Sverrir Ingi Ingason myndu ekki gefa kost á sér í landsliðið í bráð.
„Það eru ný tækifæri,“ sagði Hjörvar Hafliðason en búist er við að Arnar Þór kynni nýjan landsliðshóp á miðvikudag í næstu viku.