Nýr skandall hefur komið upp hjá ríkasta manni heims. Í kjölfar umdeildra færslna hans á samfélagsmiðlinum Twitter hafa komið í ljós ásakanir um kynferðislega áreitni frá árinu 2016.
Skjöl og viðtöl sem blaðamenn Business Insider hafa undir höndum uppljóstra að flugfreyja sem vann hjá flugvélaflota SpaceX, fyrirtækis í eigu Musks, ásakaði hann um að hafa berað sig fyrir framan sig. Þá segir hún auðkýfingin hafa gefið í skyn að hann vildi stunda kynlíf með sér. Hún segir SpaceX hafa borgað sér 250 þúsund bandaríkjadali í skiptum fyrir þögn hennar um málið og undirskrift starfslokasamnings.
Forsaga atviksins sem um ræðir er sú að eftir að konan var ráðin sem flugfreyja lagði vinkona hennar til að hún fengi faggildingu sem nuddari svo hún gæti gefið Musk nudd. Það gerði flugfreyjan en hún borgaði sjálf fyrir fullgildinguna. Eftir þetta veitti flugfreyjan Musk líkamsnudd í einkaklefanum hans á leiðinni til Lundúna, en þá fjarlægði frumkvöðullinn forríki lakið sem lá yfir neðri hluta líkama hans og er sagður hafa sýnt henni kynfæri sín.
Konan, sem hefur mikinn áhuga á hestamennsku, segir að Musk hafi „komið við hana og boðist til að kaupa handa henni hest ef hún „gerði meira“,“ og átti hann þá við kynferðislegar athafnir. Skjölin sýna að hún hafi neitað boðinu en haldið nuddinu áfram.
Eftir atvikið segir vinkona konunnar við Business Insider að í kjölfarið hafi vöktum konunnar fækkað. Hún hafi upplifað það sem refsingu. Árið 2018 réði hún lögfræðing og lagði fram kvörtun á borð mannauðsdeildar SpaceX.
Á málamiðlunarfundi, sem Musk sjálfur á að hafa sótt, samþykkti hún starfslokasamning með 250 þúsund dala greiðslu, sem gera um 32,7 milljónir í íslenskum krónum, í staðinn fyrir að skrifa undir trúnaðarsamning og loforð þess efnis að hún myndi ekki kæra.
Þetta er í fyrsta skipti sem Musk hefur verið opinberlega bendlaður við kynferðisbrot en í umfjölluninni kemur fram að SpaceX og annað fyrirtæki í eigu hans, Tesla, hafi áður fengið slík mál upp á sitt borð.
Business Insider náði tali af Musk vegna málsins og sagði hann að „málið væri mun flóknara,“ og að það væri „pólitísk árás.“ Hann bætti við: „Ef ég væri til þess hneigður að áreita kynferðislega, væri þetta ólíklega í fyrsta sinn í 30 ára ferli mínum sem það kemur upp á yfirborðið.“
Seinna vitnaði hann til málsins á Twitter: „Það á að líta á árásirnar á hendur mér í pólitísku ljósi, þetta er klassískt bragð úr bókinni þeirra en ekkert mun halda aftur úr baráttu minni fyrir farsælli framtíð og tjáningafrelsi ykkar,“ sagði hann. Ekki er víst við hverja hann átti þegar hann segir „þeirra.“
Hann bætti síðan við: „Ég er með áskorun fyrir þennan lygara sem segir mig hafa berað mig fyrir vinkonu sinni, lýstu einu atriði (ör, húðflúr…) sem er ekki vitað af almenningi. Hún mun ekki geta það, vegna þess að þetta gerðist aldrei.“
Twitter hefur ekki tjáð sig um málið en eins og frægt er þá er Musk í miðju ferli við að ganga frá kaupum á miðlinum.