Burnley náði í dýrmætt stig í fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar með jafntefli gegn Aston Villa á Villa Park í kvöld.
Ashley Barnes kom gestunum yfir úr vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks en Emiliano Buendía jafnaði fyrir heimamenn í upphafi síðari hálfleiks.
Matthew Lowton kom inn á sem varamaður í liði Burnley á 85. mínútu en var rekinn af velli á fyrstu mínútu uppbótartíma fyrir hættulega tæklingu.
Burnley tókst þó að halda út manni færri og 1-1 jafntefli niðurstaða sem þýðir að örlögin eru í höndum Burnley fyrir lokaleik liðsins gegn Newcastle á heimavelli. Burnley er jafnt Leeds að stigum með 35 stig en Leeds er með mun lakari markatölu. Leeds sækir Brentford heim í lokaumferðinni.
Aston Villa 1 – 1 Burnley
0-1 Ashley Barnes (’45)
1-1 Emil Buendía (’48)
Chelsea fékk Leicester í heimsókn á Brúnni. James Maddison kom gestunum yfir á sjöttu mínútu en Marcos Alonso sá til þess að Chelsea endar tímabilið í 3. sæti deildarinnar með marki á 36. mínútu, lokatölur 1-1. Leicester er í 9. sæti með 49 stig.
Chelsea 1 – 1 Leicester
0-1 James Maddison (’6)
1-1 Marcos Alonso (’36)