Tveir leikir voru spilaðir í þriðju umferð Lengjudeild karla í kvöld. Fylkir vann Fjölni 5-2 í Árbæ og Grótta vann 2-0 sigur á HK.
Benedikt Daríus Garðarsson kom Fylkismönnum yfir á 14. mínútu en Hákon Ingi Jónsson jafnaði fyrir Fjölni á 38. mínútu.
Staðan var ekki lengi jöfn þar sem Nikulás Val Gunnarsson kom Fylkismönnum aftur yfir með marki úr vítaspyrnu á 41. mínútu og fjórum mínútum síðar skoraði Hallur Húni Þorsteinsson þriðja mark Fylkis, staðan 3-1 í leikhléi.
Fylkir komst í 4-1 í upphafi síðari hálfleiks eftir mark Ásgeirs Eyþórssonar og Ómar Björn Stefánsson bætti við fimmta markinu fimm mínútum fyrir leikslok áður en Hákon Ingi Jónsson skoraði sárabótarmark fyri Fjölni, lokatölur 5-2. Fjölnismaðurinn Hans Viktor Guðmundsson var rekinn af velli undir lok leiks.
Þetta var fyrsta tap Fjölnis á leiktíðinni eftir tvo sigra. Fylkir er með sjö stig eftir þrjá leiki.
Grótta vann eins og áður segir 2-0 sigur gegn HK á Seltjarnarnesi. Sigurbergur Áki Jörundsson skoraði fyrra mark heimamanna á 72. mínútu og Kjartan Kári Halldórsson innsiglaði sigurinn tveimur mínútum fyrir leikslok.
Grótta er með sex stig eftir tvo leiki en HK sem missti þjálfara sinn, Brynjar Björn Gunnarsson til Örgryte í Svíþjóð er með þrjú stig.