Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrum forsætisráðherra, hefur undanfarna daga setið fundi í Finnlandi með þingmönnum og ráðherrum Eistlands og heimalandsins þar sem umræðuefnið hafi verið NATO og stríðið í Úkraínu. Sigmundur Davíð greinir frá því á Facebook-síðu sinni að fundirnir hafi lukkast vel en það hafi þó verið reynsla hans af öryggisgæslu á flugvelli í Finnlandi sem hafði mest áhrif á hann.
„Þegar komið var að brottför og ég mætti á flugvöllin, dálítið seint eins og gengur, sá ég það sem ég taldi að hlyti að vera lengsta röð veraldar til að komast í öryggiseftirlitið. En það reyndist bara vera röð til að komast í tvennar stórar réttir,“ skrifar Sigmundur Davíð. Honum hafi fallist hendur og talið að Finnar væru búnir að missa. Það reyndist þó ekki raunin.
„Nei, ég hafði þá fyrir rangri sök því öll röðin (nærri kílómeters löng að mati símans) gekk á gönguhraða. Það sem leit út eins og risastór hindrun reyndist bara vera heilsubótarganga. Gegnumlýsingartækin litu út eins og þotuhreyflar nema með bláum og rauðum ljósaskreytingum. Ég spurði hvort ég mætti taka mynd af þessu undri en mátti það ekki,“ skrifar þingmaðurinn og greinilegt er að hann var uppnuminn af reynslunni sem átti bara eftir að batna.
Frændur okkar Finnar eru því aldeilis ekki búnir að missa það, þeir eru bara skilvirkari en við. „Þeir munu reynast góð viðbót við NATO,“ skrifar forsætisráðherrann fyrrverandi.