fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fókus

Þorbjörg svarar gagnrýni um að fyrirsæta sé „of feit“ – „Ef þú hefur áhyggjur af heilbrigði mínu ertu velkominn með mér á æfingu“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 19. maí 2022 11:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorbjörg Matthíasdóttir er 32 ára kraftlyftingakona, býr Reykjavík ásamt manninum sínum og þriggja ára syni, og er ötull talsmaður jákvæðrar líkamsímyndar á samfélagsmiðlum.

Hún birti færslu á Instagram fyrr í vikunni þar sem hún svaraði gagnrýni um að fyrirsætan Yumi Nu væri „of feit“ til að vera á forsíðu Sports Illustrated.

„Kona kemur á forsíðu Sports Illustrated. Hún er feitari en módelin sem hafa sést þar áður. Fólk missir vitið yfir því að SI skuli voga sér að setja svona óheilbrigða konu á forsíðuna sína og þeim finnist þetta sko ekki fallegt.

Í fyrsta lagi er þetta fúla fólk að gefa sér það feitt = óheilbrigt sem er mýta sem er löngu búið að afsanna ef fólk hefði áhuga á því að vita það.

Í öðru lagi er fólk að segja að ef þeim þyki einhver ekki falleg þá geti engum öðrum fundist það sem er auðvitað kjaftæði.

Í þriðja lagi er það að gefa sér það að konur séu bara til þess að vera sætar og þóknast karlmönnum með því að þeim þyki þær aðlaðandi.

Þó þér finnist ég ekki sæt eða heit þá er mér drull því ég veit sjálf að ég er ógeðslega flott. Ég á fólk í lífi mínu sem metur mig að verðleikum en ekki út frá útliti mínu. Fokking óheilbrigðir staðlar um fegurð eru rotið dæmi.

Og ef þú hefur áhyggjur af heilbrigði mínu ertu velkominn með mér á æfingu,“ sagði hún.

Skipti fólki í fylkingar

Sundfataútgáfa tímaritsins Sports Illustrated kom út fyrir stuttu og vakti forsíða fyrirsætunnar Yumi Nu mikla athygli. Hún braut blað í sögu tímaritsins, þetta var í fyrsta sinn sem asísk-amerísk fyrirsæta í stærri stærð (e. plus-size) var framan á forsíðu tímaritsins.

Mikil umræða skapaðist um forsíðuna á samfélagsmiðlum, sér í lagi Twitter. Fólk skiptist í fylkingar – þau sem taka þessu fagnandi, enda kominn tími til að sjá alls konar fólk, af öllum stærðum og gerðum, í fjölmiðlum – og þau sem mótmæla málinu og telja þetta auglýsa „óheilbrigði,“ þar sem Yumi Nu er, í því sem er kallað, í stærri stærð, eða „plus-size.“

Kanadíski sálfræðingurinn Jordan B. Peterson var einn af þeim sem tjáði sig um málið á Twitter, hann sagði Yumi Nu ekki vera „fallega“ en endaði með að hætta á miðlinum stuttu seinna eftir að vera harðlega gagnrýndur.

Mynd/Instagram

Blöskraði viðtökurnar

Þorbjörg Matthíasdóttir tók eftir umræðunni á Twitter og segir að henni hefði blöskrað viðtökurnar sem forsíðan var að fá á miðlinum.

„Fólk fann sig knúið til að finna að Yumi Nu, þá aðallega að þyngd hennar. Umræðan var í þá átt að hún væri of feit og ekki væri viðeigandi að hafa slíka konu á forsíðu Sports Illustrated. Fólk gaf sér það að hún væri ekki heilbrigð vegna þess að hún væri ekki grönn, án þess að vita nokkuð um hana eða heilsuvenjur hennar,“ segir Þorbjörg.

Kraftlyftingar mjög líkamsvirðingarvæn íþrótt

Þorbjörg hefur æft kraftlyftingar í fjögur ár og er mjög öflug í sinni grein. „Þetta sport hentar mér vel og það er frábær félagsskapur. Ég hef náð góðum árangri á mótum á Íslandi en ég keppti síðast á Reykjavíkurleikunum í janúar. Ég stefni á mitt fyrsta mót í útlöndum, Vestur-Evrópumót í september,“ segir hún.

Kraftlyftingarnar hafa hjálpað Þorbjörgu í líkamsvirðingarvegferð hennar. „Þær hafa hjálpað mér mikið þar sem þar er auðveldara að einblína á hvað líkaminn er fær um, en minna um hvernig hann lítur út. Kraftlyftingar snúast um að bæta sinn persónulega árangur en ekki ákveðið útlit. Þar af leiðandi eru kraftlyftingar mjög líkamsvirðingarvæn íþrótt,“ segir hún.

Mynd/Instagram

Aðspurð hvenær hennar líkamsvirðingarvegferð hófst segir Þorbjörg að þetta hefur verið langt, og oft á tíðum erfitt, ferli.

„Það er erfitt að sættast við sjálfa sig þegar fegurðarstaðlar eru manni óhliðhollir. Allt í samfélaginu segir að ég ætti að vera óánægð með mig, svo það er ákveðin uppreisn að elska sig í þannig samfélagi,“ segir hún.

Mikilvægt að samfélagsmiðlar endurspegli samfélagið

Þorbjörg notar samfélagsmiðla sem tól í baráttu sinni fyrir jákvæðri líkamsímynd. „Það er svona frekar ný tilkomið. Ég hef svo sem alltaf verið kona með skoðanir og er ekki feimin við að flagga þeim. Mér finnst mikilvægt að samfélagsmiðlar endurspegli samfélagið en ekki bara einhverja viðurkennda fegurðarstaðla. Flest allar konur upplifa pressuna um að líta út á ákveðinn hátt og þess vegna finnst mér mikilvægt að ræða það á heiðarlegan hátt,“ segir hún og bætir við að hún væri til í að sjá meira af þannig efni á samfélagsmiðlum.

„Glansmyndin er auðvitað algeng og skemmtileg, upp að vissu marki, en við verðum líka að vera meðvituð um að samfélagsmiðlar auka oft á tíðum vanlíðan fólks og það er hressandi að sjá raunveruleikann annað slagið. Við verðum einnig að vera meðvituð um hvaða efnis við neytum á samfélagsmiðlum og horfa á það með gagnrýnum augum.“

Instagram aðgangar til að fylgja

Við fengum Þorbjörgu til að nefna nokkra Instagram aðganga sem hún fylgir út frá jákvæðri líkamsímynd.

„Ég á heilan vinkonuhóp sem ég kynntist í gegnum Instagram sem eru allar virkar í líkamsvirðingarsamfélaginu. Þær eru mér svo dýrmætur stuðningur og speglar í þessari vegferð allir svo það er mér ljúft og skylt að mæla með nokkrum þeirra,“ segir hún.

Erna @ernuland

Fjóla @fjola_heiddal

Lilja @liljagisla

Hulda @huldabwaage

Elín @elinasbjarnar

Silja @siljabjorkk

Alexandra @lexaheilsa

Uppáhalds erlendu aðgangarnir sem Þorbjörg fylgist með:

@aliciamccarvell

@thebirdspapaya

@meganjaynecrabbe

Hér að neðan má lesa pistil sem Þorbjörg skrifaði um áramótin, tímabil þar sem margir henda sér í megrun. Hægt er að fara á Instagram-síðu Þorbjargar með því að ýta hér, eða ýta á myndina hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – Sjóðandi heitur desember

Vikan á Instagram – Sjóðandi heitur desember
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“

„Það er of mikil áhersla lögð á að fá einhverja einkunn á prófi en gleymist að það gengur ekki upp ef börnum líður illa“