Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Breka að gengismunur í kortafærslum sé gífurlegur og kallar hann eftir aukinni samkeppni bankanna á þessu sviði. „Þetta er stór tekjuþáttur hjá bönkunum. Bankarnir mættu gera miklu betur í samkeppni hvað varðar gengi þeirra kreditkorta sem verið er að nota,“ sagði hann.
Gylfi Magnússon, prófessor við Háskóla Íslands, sagði þennan gengismun vera alveg út úr kortinu og að bankarnir taki mjög háar þóknanir, oft mörg prósent. Ofan á þær bætist síðan færslugjöld. Hann tók undir orð Breka um fákeppni á bankamarkaði og sagði þetta endurspegla að lítið fari fyrir samkeppni.
Hvað varðar notkun greiðslukorta erlendis eru margir óvissir um hvort það sé hagstæðara að greiða fyrir vörur og þjónustu með íslenskum krónum eða gjaldmiðli þess lands sem þeir eru staddir í. Breki sagði að Neytendasamtökin hafi gert könnun á þessu fyrir nokkrum mánuðum og hafi þá komið í ljós að það sé alltaf hagstæðara að versla í mynt þess lands sem viðkomandi er staddur í. Þá sé gengið hagstæðara fyrir neytendur.