Kristall Máni Ingason, leikmaður Víkings Reykjavíkur, fékk að líta rauða spjaldið í leik liðsins gegn Breiðablik í gærkvöldi eftir að hafa gefið leikmanni Blika, Davíð Ingvarssyni, olnbogaskot undir lok leiks.
Davíð lét sig falla til jarðar með tilþrifum og reif Ívar Orri Kristjánsson, dómari leiksins, upp rauða spjaldið.
Margir voru á því að Kristall fengi tveggja leikja bann fyrir athæfið en svo verður ekki.
Á fundi aga- og úrskurðarnefndar Knattspyrnusambands Íslands í dag var ákveðið að Kristall fengi aðeins eins leiks bann.
Leikmaðurinn verður því aðeins í banni er Víkingar heimsækja Val næstkomandi sunnudag í Bestu deildinni.