Víkingur Reykjavík tapaði í gær 3-0 fyrir Breiðablik í Bestu deildinni og þar með heldur brösótt gengi Íslandsmeistaranna áfram í upphafi móts. Víkingar hafa leikið sjö leiki í Bestu deildinni og hafa nú þegar tapað fleiri leikjum heldur en allt síðasta tímabil í efstu deild.
Íslandsmeistararnir byrjuðu mótið vel með 2-1 sigri á FH en í kjölfarið kom 3-0 skellur á útivelli á móti ÍA áður en liðinu tókst að snúa við blaðinu með 4-1 sigri gegn Keflavík.
Fyrsta tap Víkinga á heimavelli á tímabilinu kom gegn Stjörnunni í algjörum markaleik sem lauk með 5-4 sigri Stjörnunnar, í kjölfarið kom markalaust jafntefli gegn Leiknismönnum áður en að liðið vann 4-1 sigur á nýliðum Fram.
Blikar mættu síðan á Víkingsvöllinn í gær, skoruðu þrjú mörk og fóru með þrjú stig aftur í Kópavoginn.
Víkingar áttu mögnuðu gengi að fagna í fyrra þar sem að liðið tapaði aðeins tveimur leikjum í efstu deildinni. Þau töp komu gegn Leikni í 10. umferð og Blikum í 15. umferð.
Ríkjandi Íslandsmeistararnir sitja nú í 6. sæti með tíu stig eftir 7 leiki og eru nú þegar komnir 8 stigum á eftir toppliði Breiðabliks sem á einnig leik til góða á Víkinga.