Illustreret Videnskab segir að niðurstöður rannsóknar vísindamanna við Columbia háskólann í New York sýni að það sé hægt að ná fyrri háralit aftur ef hárið er orðið grátt.
Vísindamennirnir rannsökuðu öldrunarferli hárs með því að rannsaka hár af 14 manns. Það kom þeim á óvart að sjá að inn á milli leyndust hár sem voru með lit niður við hárræturnar en grá þegar ofar dró. Sem sagt hár sem var að ná fyrri lit á nýjan leik.
Þegar þátttakendurnir voru spurðir út í mest stressandi kringumstæður síðustu ára og þær minnst stressandi skýrðust málin. Þá sáu vísindamennirnir að grái liturinn kom á tímabilum þar sem þátttakendurnir voru mjög stressaðir. Til dæmis hafði hár þrítugrar konu gránað um 2 cm á tveggja mánaða tímabili eftir að hún skildi við eiginmann sinn. Hjá öðrum þátttakanda fékk hárið fyrri lit aftur þegar hann fór í tveggja vikna frí.
Ekki liggur enn fyrir hvort hægt er losna alveg við gráa litinn með því að slappa af og minnka stress eða hvort það eigi aðeins við um einstaka hár.