Guðrún Arnardóttir var á sínum stað í vörninni hjá Rosengård er liðið fékk Berglindi Rós Ágústsdóttur og stöllur í Örebro í heimsókn í sænsku úrvalsdeild kvenna í kvöld.
Leiknum lauk með 2-0 sigri Rosengård sem heldur toppsætinu á markatölu. Mia Persson og Jelena Cankovic gerðu mörkin í fyrri hálfleik. Báðar landsliðskonurnar léku allan leikinn.
Diljá Ýr Zomers kom inn af bekknum hjá Häcken á 72. mínútu er liðið vann 3-1 sigur á Kalmar. Agla María Albertsdóttir sat allan tímann á varamannabekknum. Häcken er jafnt toppliði Rosengard að stigum en bæði lið eru með 21 stig eftir níu umferðir.
Þá vann Íslendingalið Kristianstadt 2-0 útisigur á Hammarby. Amanda Andradóttir og Emelía Óskarsdóttir byrjuðu báðar á varamannabekknum hjá gestunum en Amanda lék síðustu 20 mínúturnar. Kristianstadt er í sjötta sæti deildarinnar með 15 stig.