Brenton Muhammad markvörður Vestra hefur undanfarna daga legið á sjúkrahúsi eftir að hjarta hans fór að stækka í kjölfar lungnabólgu.
Markvörðurinn knái hefur verið í herbúðum Vestra frá árinu 2018 en hann kom til Íslands árið 2015 og hafði leikið með Ægi og Tindastól áður en hann fór í Vestra.
„Brenton fékk lungnabólgu, það fór að stækka í honum hjartað,“ sagði Samúel Sigurjón Samúelsson formaður meistaraflokksráðs hjá Vestra í samtali við 433.is.
Sigur Vestra á Aftureldingu verður skoðaður í Lengjumörkunum á Hrinbraut 19:00 í kvöld.
„Hann var sendur suður til Reykjavíkur á sjúkrahús og er þar ennþá. Hann er allur að koma til en það er verið að fylgja honum eftir. Hann er ekkert að spila fótbolta á næstunni,“ segir Samúel.
Brenton fór að finna fyrir slappleika og ákvað að láta skoða málið. „Hann var slappur fyrir æfingaleik á móti ÍA sem var viku fyrir mót. Á þriðjudegi var hann enn slappur og lét þá skoða sig, þetta var þá niðurstaðan.“
„Hann fór í göngutúr núna fyrir stuttu sem hann átti erfitt með. Maður veit ekki hver staðan verður en maður gerir ráð fyrir því að hann spili ekki á næstunni.“