Óhætt er að fullyrða að margir stjórnmálamenn hefðu viljað vera í sporum Einars Þorsteinssonar, oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík, í gærmorgun. Vakna brosandi upp eftir nótt sigurvegarans með fjögurra borgarfulltrúa flokk sem áður hafði varla verið til viðlits í Reykjavík. Líta á símann og sjá missed call frá Degi borgarstjóra og hlýlegt sms frá Hildi Sjálfstæðisoddvita.
En svo skellur grámyglulegur mánudagurinn á.
Þrátt fyrir að Einar sé með Pálma Gestsson í höndunum þá eru erfiðar ákvarðanir fram undan fyrir pólitískan nýliða og ljóst er að þó ávinningur sé til skamms tíma þá gæti það reynst dýrkeypt til lengri tíma.
Frosið bros við fréttir af kosningabandalaginu
Þegar kosningarnar voru við það bresta á og ljóst að Framsókn væri í stórsókn var strax farið að ýja að því að Dagur væri að gefa Einari undir fótinn varðandi samstarf. Það var eflaust hárrétt og ljóst er að Einar verður boðaður á fund innan tíðar.
Sennilega hefur Dagur haft réttmætar áhyggjur af því Einar myndi mæta of kokhraustur á þennan fund og því má segja að útspilið í morgunsárið um bandalag Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar hafi verið heppilegt til að slá talsvert af spilum úr hendi Einars.
Dagur 1 – Einar núll…gegn gangi leiksins.
Erfitt var samt að sjá hvað Þórdís Lóa ætlar að fá út úr þessu bandalagi. Í stað þess að vera í ágætri stöðu við að semja við Einar og Hildi yfir bullsjóðandi kjötkötlunum þá væri flokkurinn orðin erindlaus hækja undir Degi. Það hafði hörmulegar afleiðingar á kjördegi fyrir flokkinn og með nokkrum ólíkindum ef ákveðið hafi verið að feta þá braut áfram og hvað þá að gefa það út opinberlega.
„Þetta er flott krakkar. Við vorum hársbreidd frá því að þurrkast út í þessum kosningum og ef við leggjum okkur fram þá mun það örugglega hafast í þeim næstu.“
Enda reyndist það líka raunin. Nokkrum klukkustundum síðar var Þórdís Lóa búin að gefa það út að hún væri mögulega alveg til í að heyra í Einari og Hildi Björns. Brosið á Einari sem fraus við tíðindin um kosningabandalagið hefur þiðnað að nýju.
Dagur 1 – Einar 2
Í raun og veru er nefnilega Pálmi Gests ekkert að öllu leyti í höndunum á Einari. Hluti af leikaranum dáða er nefnilega í höndum oddvita Viðreisnar sem væri í sterkri stöðu að semja um meirihluta við Einar, Hildi Björns og Kolbrúnu í Flokki Fólksins.
„Ég verð forseti borgarstjórnar, áfram gakk með Borgarlínu og bara eitthvað, ég tek Faxaflóahafnir og Orkuveituna og það verða engar helvítis rækjusamlokur á fundum. Bara roastbeef og appelsín“ – gæti til dæmis verið fyrsta útspil Þórdísar Lóu á þeirra fundi og því yrði vel tekið jafnvel þó bæði Einar og Hildur hati remúlaði.
Dagur gæti gefið stólinn
En Einar mun funda með Dagsfylkingunni innan tíðar og hlusta á gylliboð þaðan. Ekki síst út af helblárri fortíð hans væri það ekki klókt að hoppa beint í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn.
Á þeim fundi verður eflaust vel boðið og talsverðar líkur á því að Einari bjóðist borgarstjórastólinn, jafnvel til fjögurra ára. Dagur áður gefið upp stólinn til að tryggja meirihlutasamstarf og hann mun ekki hika við það öðru sinni.
Eins og góður lúdóspilari þarf þó Einar að íhuga hver langtímaafleiðingarnar verða. Kosningaslagorð Framsóknar í borginni var að eina leiðin til að knýja fram breytingar í borginni væri að setja x við B.
Það er ekki líklegt að Dagur, Dóra Björt og Þórdís Lóa leyfi Einari að vinda ofan af starfi þeirra undanfarin ár. Í mesta lagi fær hann að gera einhverjar aðlaganir og hvort að það fari vel í kjósendur í næstu kosningum, hvort sem Einar verði í framboði til borgarstjórnar eða Alþingis, er að minnsta kosti talsverð áhætta.
Staðan virðist breytast fljótt þó að líkurnar á því að Einar halli sér til Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Flokk fólksins séu allnokkrar. Sú stjórn gæti hæglega ráðist í talsverðar breytingar en helsti ótti Einars er mögulega ákveðið reynsluleysi innan raða samstarfsflokka og ekki síður ákveðin óeining um stór mál innan raða Sjálfstæðisflokksins. Þá er alls ekki víst að hann fái borgarstjórastólinn nema hluta kjörtímabilsins.
Þá má ekki að gleyma því að hvorki Einar, né Þórdís Lóa ef út í það er farið, geta verið of kokhraust í samningaviðræðunum. Ef að þau ganga of langt í kröfum sínum þá gæti það nánast þvingað Dag og Hildi í símtal sem hæfist á orðunum: „Jæja….“
Það er gaman að vera sigurvegari kosninga en Einar Þorsteinsson er eflaust að upplifa þessi dægrin að það er líka ógeðslega erfitt.