Þetta sagði Budanov í samtali við Sky News. Hann sagðist vera bjartsýnn hvað varðar þróun stríðsins: „Vendipunkturinn verður í síðari helmingi ágúst. Flestir bardagar verða afstaðnir fyrir áramót. Niðurstaðan verður að við verðum aftur með yfirráð yfir öllum landsvæðum okkar, sem við höfum misst, þar á meðal Donbas og Krím.“
Í Donbas eru Lugansk og Donetsk en Rússar segjast hafa ráðist inn í Úkraínu til að „frelsa“ þessi svæði úr höndum „úkraínskra nýnasista“ og stöðva „þjóðarmorð“. Krím hafa Rússar haft á sínu valdi síðan 2014.
Hart er barist í Donbas þessa dagana en Rússar hafa reynt að sækja fram þar með fjölmennu herliði en án þess að ná miklum árangri. Budanov sagði að Úkraína viti „allt um óvininn“. „Við vitum um áætlanir þeirra næstum samtímis og þær eru gerðar,“ sagði hann.