Það er mikið undir hjá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra sem berst fyrir því að halda meirahluta, og mögulega starfi sínu, í sveitarstjórnarkosningunum sem enn standa yfir. Allt bendir til þess að mjótt verði á munum og Dagur, eins og eflaust aðrir frambjóðendur, er því með öll net út.
Athygli vakti að borgarstjóri henti inn hvatningu til mögulegra kjósenda á Twitter og merkti hana með hashtagginu #12stig sem venjulega er aðeins ætlað undir Eurovision-tengd tíst.
„Rétt rúm klukkustund í lokun kjörstaða í Reykjavík – stefnir í hnífjafnar kosningar – nýtum kosningaréttinn! Og sjálfsagt að kjósa í Eurovision í gegnum símann í leiðinni! Koma svo!“ skrifaði Dagur og hvatti fólk til dáða.
Segja má að menntaskólaneminn og aktívistinn Jón Bjarni hafi kjarnað hugsanir netverja saman með einfaldri spurningu til Dags.
„Stressaður?“
Borgarstjóri neitaði því og vísaði lóðbeint í reynslubankann. Hvert atkvæði telur.
„Peppaður – en vann einu sinni stúdentakosningar á fimm atkvæðum. Hættum ekki að hringja og minna fólk á að kjósa fyrr en kjörstaðir lokuðu. Þekkti þessa fimm kjósendur öll með nafni. Brosi enn við minninguna. Miklu meira í húfi nú,“ svaraði Dagur.
Rétt rúm klukkustund í lokun kjörstaða í Reykjavík – stefnir í hnífjafnar kosningar – nýtum kosningaréttinn! Og sjálfsagt að kjósa í Eurovision í gegnum símann í leiðinni! Koma svo! #12stig
— dagur@reykjavik.is (@Dagurb) May 14, 2022