Mohamed Salah segist vera klár í slaginn fyrir úrslitaleikinn gegn Real Madrid í Meistaradeildinni þann 28. maí næstkomandi.
Salah fór meiddur af velli eftir rúmlega hálftíma leik er Liverpool mætti Chelsea í úrslitaleik enska bikarsins í dag. Liverpool vann leikinn í vítaspyrnukeppni eftir markalaust jafntefli í framlengingu.
Virgil van Dijk fór meiddur af velli undir lok venjulegs leiktíma og Joel Matip kom inn á í hans stað. Jurgen Klopp sagði þó að meiðsli Hollendingsins væru ekki jafn slæm og meiðsli Salah.
Aðspurður í lok leiks hvort Salah yrði klár í slaginn gegn Real Madrid sagði Egyptinn: „Já, ég er góður!“
Liverpool á enn möguleika á að vinna fjórfalt í ár en liðið hefur þegar tryggt sér enska deildarbikarinn og enska FA bikarinn. Lærisveinar Jurgen Klopp eru þremur stigum á eftir Man City þegar tvær umferðir eru eftir og leika eins og áður segir til úrslita í Meistaradeildinni.