Eggert Gunnþór Jónsson hefur fengið leyfi frá FH til að mæta aftur til starfa hjá félaginu eftir að héraðssaksóknari felldi niður kæru á hendur honum og Aroni Einari Gunnarssyni, öðrum knattspyrnumanni.
Íslensk kona lagði fram kæru síðasta haust og sakaði tvímenningana um að hafa nauðgað sér í kjölfar landsleiks í Kaupmannahöfn árið 2010. Málið var fellt niður í gær.
Eggert Gunnþór steig til hliðar þann 21. apríl síðastliðinn að ósk FH meðan rannsókninni stóð yfir en hann er bæði leikmaður og þjálfari hjá félaginu. Knattspyrnulið FH-inga var þá harðlega gagnrýnt fyrir að hafa leikmanninn í byrjunarliðinu í Bestu deildinni í ljósi ásakana um gróft kynferðisbrot en nú fær hann að mæta aftur til starfa.
„Í samræmi við fyrri yfirlýsingar félagsins og í ljósi nýrrar stöðu í málinu þar sem rannsókn er lokið og héraðssaksóknari hefur látið málið á hendur leikmanni félagsins, Eggerti Gunnþóri Jónssyni, falla niður þá hefur félagið ákveðið að hann megi aftur halda til fyrri starfa og verði aftur hluti af leikmannahópi félagsins,“ segir í yfirlýsingu FH í kvöld.
„Félagið hefur lagt áherslu á vönduð og fagleg vinnubrögð í þessu viðkvæma máli og mun ekki tjá sig frekar um málið.“