Alfreð Finnbogason kom inn á sem varamaður er Augsburg vann 2-1 sigur á SpVgg Greuther Fürth í þýsku úrvalsdeild karla í fótbolta í dag.
Augsburg endaði í 14. sæti deildarinnar. Daniel Caligiuri og Michael Gregoritsch skoruðu mörk liðsins í dag. Alfreð lék síðustu 20 mínúturnar og kom inn á í stöðunni 1-1.
Borussia Dortmund vann Hertha Berlin á heimavelli eftir að hafa lent undir í fyrri hálfleik. Erling Haaland jafnaði metin úr vítaspyrnu á 68. mínútu í síðasta leik Norðmannsins fyrir þýska liðið áður en varamaðurinn Youssoufa Moukoko skoraði sigurmarkið sex mínútum fyrir leikslok, lokatölur 2-1.
Dortmund endar tímabilið í öðru sæti en Hertha Berlin fer í umspil um sæti í efstu deild á næstu leiktíð. Þá gerðu meistarar Bayern Munchen 2-2 jafntefli gegn Wolfsburg. Robert Lewandowski og Josip Stanisic skoruðu mörk Bæjara.
RB Leipzig leikur í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð þrátt fyrir 1-1 jafntefli gegn DSC Arminia Bielefeld. Liðið fylgir Bayern, Dortmund og Bayer Leverkusen í keppnina.