Nóg var um að vera hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Rétt fyrir kvöldmatarleytið í gær réðust tveir menn á annan mann í hverfi 104 og kröfðust þess að viðkomandi minni millifæra á þá pening. Samkvæmt dagbók lögreglu leitaði árásarþolinn aðstoðar á bráðadeild og er málið í rannsókn.
Þá slasaðist tónleikagestur en talið er að viðkomandi hafi fallið yfir handrið á stúku, cirka fjóra metra og lent á flísalögðu gólfi. Meðvitund hans var lítil og var hann fluttur með sjúkrabifreið á bráðadeild. Ekkert kemur fram um líðan eða áverka mannsins í dagbók lögreglu.
Þá var tilkynnt um líkamsárás á öðrum tónleikum þar sem öryggisvörður var kýldur ítrekað í andlitið eftir að hafa vísað tónleikagesti úr húsi. Árásaraðilinn komst á brott í leigubifreið.
Þá voru fjölmörg tilvik þess þar sem einstaklingar voru stöðvaðir vegna gruns um að keyra undir áhrifum. Einn slíkur aðili er talinn hafa valdið öðrum árekstri tveggja bifreiða klukkan hálf tvö í nótt. Fjórir eru sagðir slasaðir eftir áreksturinn og voru fluttir á bráðadeild. Sá sem grunaður er um ölvunarakstur var vistaður í fangageynslu lögreglu eftir aðhlynningu.