Tveir oddvitar meirihlutans í Reykjavík eiga eignir sem þeir leigja út í 101 Reykjavík. Þetta eru Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, sem leigir út kjallarann á húsi sínu við Óðinsgötu 8 b til sælkeraverslunar og svo Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi og oddviti Vinstri grænna, sem leigir út tvær íbúðir á Bræðraborgarstíg 22 en sjálf er hún búsett á Hagamel. Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, segir þau þar með ótrúverðug þegar kemur að baráttu fyrir hagsmunum leigjenda.
Í hagsmunaskráningu borgarfulltrúa á vef Reykjavíkurborgar þarf að taka fram „Fasteign sem er að einum þriðja eða meira í eigu borgarfulltrúa eða félags sem hann á fjórðungs hlut í eða meira, annað en húsnæði til eigin nota fyrir borgarfulltrúa og fjölskyldu hans og lóðaréttindi undir slíkt húsnæði.“
Dagur tiltekur þar að hann leigi út kjallarann á Óðinsgötu og Líf tiltekur að hún eigi tvær eignir á Bræðraborgarstíg 22. Ekki er skylda að taka fram hvort viðkomandi eignir eru í útleigu.
DV fletti upp öllum oddvitum framboðanna í Reykjavík í því skyni að skoða hvort viðkomandi ætti eign í útleigu og átti það aðeins við um Dag og Líf.
Önnur af íbúðum Lífar á Bræðraborgarstíg er 132,9 fermetrar og er hún leigð út á 300 þúsund krónur á mánuði samkvæmt þinglýstum leigusamningi. Hin íbúðin er 86,4 fermetrar og er leigð út á 180 þúsund krónur á mánuði. Enginn þinglýstur leigusamningur er til staðar vegna kjallarans á Óðinsgötu 8b og er ekki skylda að þinglýsa leigusamningum.
Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, segir að borgarfulltrúar sem jafnframt séu leigusalar séu ekki trúverðugir þegar kemur að baráttu fyrir hagsmunum leigjenda. „Þetta eru bara leigusalarnir sem ráða Reykjavík,“ segir hann um að Líf og Dagur eigi bæði eignir sem þau leigi út.
„Þau ræða um leigumarkaðinn út frá sínu sjónarhorni, bæði sem leigusalar og sem borgarfulltrúar í vinfengi við þau fasteignafélög og leigufélög sem græða á leigjendum. Þau hafa í raun lagt út þennan rauða dregil fyrir fasteignafélögin, fyrir fjárfesta og eignafólk til þess að koma og græða á varnarlausum leigjendum og þráast svo við í allri kosningabaráttunni að taka upp umræðuna um velferð leigjenda og hvernig hún sé tryggð. Þetta fólk er algjörlega óhæft til að sinna hagsmunagæslu fyrir leigjendur sem borga fyrir þessa hægu uppbyggingu í Reykjavík með sífellt hærri húsaleigu. Þannig lít ég á þetta,“ segir Guðmundur.
Hann bendir á að reynsluheimur þeirra sem eiga eignir umfram eigið heimili sé gjörólíkur þeirra sem eru á leigumarkaði í dag og þeir eigi erfitt með að setja sig í spor leigjenda. „Það er allt annað að hafa búið á leigumarkaði hér á Íslandi fyrir 15 eða 20 árum síðan. Að búa á leigumarkaði í dag er mjög fjandsamlegt, þetta er fjandsamlegt og hættulegt umhverfi, og það að borgarfulltrúar, sérstaklega þeir sem fara með málefni leigjenda, séu sjálfir að taka þátt í þessu braski sem leikarar inni á leigumarkað skýtur mjög skökku við,“ segir Guðmundur.
En miðað við það sem gerist og gengur er 180 þúsund króna mánaðarleiga fyrir ríflega 86 fermetra íbúð í miðbæ Reykjavíkur er afar hóflegt, líkt og á við minni íbúðina hennar Lífar.
Við þessu segir Guðmundur: „Já, að er hóflegt leiguverð miðað við markaðinn eins og hann er í dag. Ef þessi íbúð væri leigð út í Stokkhólmi þá væri fermetraverðið í kring um 1600 krónur sem þýddi að leigan þarna ætti að vera 125 þúsund. Ef þessi íbúð væri í Finnlandi þá væri leiguverðið á svipuðum slóðum. Þetta er dýrt. Líka bara miðað við lágmarkslaun í landinu. Lágmarkslaun í landinu eru ekki nema 33% af fermetraverði meðan lágmarkslaun í Noregi eru 47% af fermetraverði. Þannig að leiguverð miðað við kaupverð íbúða er um 40-50% hærra á Íslandi heldur en alls staðar annars staðar í Norður-Evrópu. Þó að þetta sé markaðsverðið þá þýðir það ekki að þú sem leigusali eigir að fylgja því. Þú þarft að hafa þín manngildi í lagi til að segja: Ég þarf ekki að leigja þetta á svona mikið því mín eignamyndun hún stendur undir því endurgjaldi sem ég vil fá úr minni fjárfestingu,“ segir hann.
Og Guðmundi finnst sitjandi meirihluti alls ekki hafa staðið sig þegar kemur að málefnum leigjenda. „Mér þykir leitt að segja þetta um fólk sem upphaflega meinti vel þegar það fór í stjórnmál en þau hafa selt aðgang að varnarlausum leigjendum, selt hann auðmannaklíkum og ætla ekkert að gera til að verja leigjendur, ætla ekki að fara fram á að það verði sett upp regluverk varðandi verðmyndum á leigumarkaði og ætla að viðhalda okurleigu með því að skattleggja almenning í gegn um húsnæðisstyrkina. Þau kalla núna á hærri húsnæðisstyrki þegar leigan er að hækka. Það er ekki veirð að tala um að það verði að lækka leiguna heldur skattleggja almenning til að viðhalda fátækt og örvæntingu á leigumarkaði. Hvers lags félagshyggja er það? Þetta fólk stendur ekki fyrir félagshyggju.“