Simon Jordan, sérfræðingur talkSPORT skilur hvorki upp né niður í deilum Rebekuh Vardy og Coleen Rooney sem eru nú komnar fyrir dómsstóla. Hann segir málið skammarlegt og hvetur eiginmenn þeirra til þess að hætta fjármagna þessa vitleysu.
Deilur kvennanna tveggja hafa staðið yfir í langan tíma en Rebekah ákvað að fara með málið fyrir dómstóla eftir að Coleen ásakaði hana um að leka upplýsingum um einkalíf hennar til breska slúðurmiðilsins The Sun. Málið hefur teygt anga sína inn í umhverfi enska boltans en Rebekah er eiginkona Jamie Vardy, framherja enska úrvalsdeildarfélagsins Leicester City.
Coleen greindi opinberlega frá ásökunum sínum í Twitterfærslu í október árið 2019 þar sem hún sagðist hafa haft grun um að Rebekah hafi verið að leka upplýsingum um einkalíf sitt til The Sun.
,,Ég held þetta ætti að renna upp fyrir eiginmönnum þeirra eftir að hafa fylgst með þessu:’Dömur – við hættum að fjármagna þessa vitleysu, pökkum saman, þetta er komið gott, þetta er vandræðalegt og algjör óþarfi,'“ lét Simon Jordan hafa eftir sér á talkSPORT um málið.
Hann segir það sorglegt að tími fólks fari í þetta. ,,Þessar tvær konur þurfa að þroskast og gera sér grein fyrir að það eru miklu brýnari hlutir í heiminum en egóið þeirra, narsissískar skoðanir þeirra á heiminum og það sem þær halda að þær eigi rétt á.“