CNN skýrir frá þessu. Fram kemur að skipið heiti Matros Pozynich. Það er eitt þriggja skipa sem flytja stolið úkraínskt korn frá Úkraínu að sögn úkraínskra embættismanna.
Skipið lá við ankeri við Krím í lok apríl og var þá slökkt á staðsetningarbúnaði þess. Daginn eftir var það komið í höfn í Sevastopol miðað við gervihnattarmyndir.
Þaðan var því siglt áleiðis til Alexandríu í Egyptalandi og voru tæplega 30.000 tonn af stolnu úkraínsku korni um borð. Úkraínsk yfirvöld gerðu egypskum yfirvöldum viðvart um að kornið væri stolið og fékk skipið því ekki að leggjast að bryggju í Egyptalandi. Það sama gerðist þegar reynt var að leggjast að bryggju í Beirút.
Í síðustu viku lá skipið við bryggju í Latakia í Sýrlandi. Nú er það farið þaðan og er á leið til Krím. Talið er hugsanlegt að korninu hafi verið skipað upp úr skipinu í Sýrlandi og sé jafnvel komið um borð í annað skip.