Sky News segir að talsmenn ráðamanna í Kreml hafi sagt að umsókn Finna um aðild að NATÓ muni „örugglega“ vera ógn við Rússland. Segja Rússar þá ákvörðun Finna að ganga í NATÓ vera „beina ógn“ sem kalli á viðbrögð af hálfu Rússar, bæði „hernaðartæknilega og af öðru tagi“.
Dmitry Polyansky, fulltrúi Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði í samtali við breska netmiðilinn UnHerd News í gær að ef Finnland og Svíþjóð ganga í NATÓ geti bæði löndin orðið skotmark rússneska hersins.
„Þau (Svíþjóð og Finnland, innsk. blaðamanns) vita að um leið og þau verða aðilar að NATÓ mun það kalla á viðbrögð frá Rússlandi, viðbrögð sem hafa venjulega áhrif á aðildarríki NATÓ. Þetta þýðir að ef hersveitir frá NATÓ verða staðsettar í Finnlandi verða þau svæði hugsanlega skotmark, alveg eins og rússnesk svæði verða skotmark NATÓ,“ sagði hann.
Hann sagði að NATÓ væri óvinur Rússa. Það hafi NATÓ viðurkennt og þetta þýði að skyndilega verði Finnland og Svíþjóð óvinaríki í stað þess að vera hlutlaus ríki. Þau taki sömu áhættu og önnur ríki og þetta hafi efnahagsleg áhrif. „En það er íbúa landanna að ákveða þetta. Þeir voru góðir nágrannar okkar áratugum saman og skyndilega ákváðu þeir að verða hluti af mjög óvinveittum samtökum. Það er þeirra mál. En auðvitað neyðumst við til að taka ákveðin skref á hernaðarsviðinu,“ sagði hann einnig.