Á fyrsta degi stríðsins stóðu 13 úkraínskir hermenn á eyjunni, sem heitir raunar Zmijinyj, sem er 16 hektarar og áttu að reyna að verjast árás risastórs rússnesks herskips. Rússarnir báðu Úkraínumennina um að leggja niður vopn en svar þeirra er orðið frægt: „Farið til helvítis.“
En skipið og áhöfn þess fóru ekki til helvítis og frá fyrsta degi innrásarinnar hafa Rússar verið með eyjuna á sínu valdi. Lítið var um fréttir frá eyjunni en það hefur breyst síðustu daga. Úkraínski herinn hefur birt myndir af drónaárásum á eyjuna og í síðustu stöðuskýrslum breska varnarmálaráðuneytisins kemur fram að bardagar nærri eyjunni hafi harðnað að undanförnu.
Bretarnir segja að Rússar reyni nú að styrkja stöðu sína á eyjunni, sem hefur mikla hernaðarlega þýðingu vegna legu sinnar, en Úkraínumönnum hafi tekist vel upp í árásum á eyjuna og birgðaflutninga til hennar.
Eftir að Rússar misstu Moskvu, sem var flaggskip þeirra í Svartahafi, eru þeir líklega orðnir smeykir við að sigla of nærri landi og því háðari því að hafa yfirráð yfir Slöngueyju. Þaðan geta þeir fylgst með skipaferðum um Svartahaf og verið eins nærri Úkraínu og hægt er án þess að vera á skipi.