Það má velta fyrir sér hvenær sé hægt að segja að Pútín hafi í raun tapað stríðinu í Úkraínu. Verður það ekki hægt fyrr en úkraínska hernum tekst að hrekja rússneskar hersveitir aftur yfir til Rússlands? Eða töpuðu Rússar stríðinu í raun og veru þegar þeir urðu að hörfa frá Kyiv?
Er endurvakið samstarf Bandaríkjanna og Evrópu ekki ósigur í sjálfu sér fyrir Rússland? Ætlun Pútíns var jú að reka fleyg í samstarf Bandaríkjanna og Evrópuríkja og milli Evrópuríkja. Það tókst ekki og þess í stað þjöppuðu ríkin sér saman og standa þéttar saman en þau hafa gert um langa hríð.
Þá má einnig velta fyrir sér hvort hin mikla aðstoð í formi vopna frá Bandaríkjunum sé ekki stór ósigur fyrir Pútín? Síðasta ákvörðun bandarískra stjórnvalda um vopnasendingar til Rússland jafnast á við helming útgjalda Rússa til varnarmála á ári.
Samstaða Vesturlanda, bæði innan NATÓ og ESB, er mikið áfall fyrir Pútín sem hafði tekist vel á síðustu árum að reka fleyg á milli einstakra aðildarríkja NATÓ og ESB. Með tilkynningu finnska forsetans og forsætisráðherrans í gær um að þeir mæli með umsókn að NATÓ beið Pútín stóran ósigur. Nú fær hann NATÓ alveg upp að rússnesku landamærunum en Finnland og Rússland deila 1.300 km löngum landamærum.
Finnska þingið þarf að samþykkja tillögu ríkisstjórnarinnar um að sótt verði um aðild að NATÓ en talið er að það sé eingöngu formsatriði að leggja málið fyrir þingið, svo mikils stuðnings nýtur aðildarumsóknin meðal þingmanna og raunar almennings. Síðust kannanir sýna að um 70% Finna styðja að sótt verði um aðild að NATÓ. Þetta er stórt skref fyrir Finna sem hverfa frá 75 ára hlutleysisstefnu sinni.
Það mun væntanlega ekki verða til að bæta skap Pútíns að sænska ríkisstjórnin mun taka ákvörðun á mánudaginn um hvort Svíar fylgi í fótspor Finna og sæki um aðild. Talið er að það muni þeir gera. Þar með hefur Pútín, með innrásinni í Úkraínu, séð til þess að tvö nágrannaríki, sem hafa verið hlutlaus áratugum saman, ganga í NATÓ.
Rússar hafa varað við því að innganga Finna og/eða Svía í NATÓ sé ekki til þess fallin að auka öryggi í Evrópu, þvert á móti og hafa hótað að flytja kjarnorkuvopn nær finnsku landamærunum.