Tveir leikir fóru fram í norsku úrvalsdeildinni í kvöld. Komu nokkrir íslenskir leikmenn við sögu í þeim.
Viðar Örn Kjartansson og Brynjar Ingi Bjarnason léku allan leikinn með Valarenga í 1-0 tapi gegn Tromsö. Liðið er í fimmta sæti með níu stig eftir sex leiki.
Þá var Íslendingaslagur þegar Viking og Stromsgodset mættust. Patrik Sigurður Gunnarsson stóð í marki fyrrnefnda liðsins á meðan Ari Leifsson lék allan leikinn með því síðarnefnda. Samúel Kári Friðjónsson lék þá síðasta hálftímann með Viking. Niðurstaðan varð markalaust jafntefli.
Viking er á toppi deildarinnar með 16 stig eftir sjö leiki. Stromsgodset er með sjö stig eftir sex leiki.
Í sænsku úrvalsdeildinni var Íslendingaslagur þegar Örebro og Hacken mættust. Berglind Rós Ágústsdóttir leikur með Örebro og kom hún inn á sem varamaður á 82. mínútu. Skömmu áður hafði Agla María Albertsdóttir komið inn á fyrir Hacken. Leiknum lauk með 0-1 sigri Hacken.
Liðið er á toppi deildarinnar með 18 stig eftir átta leiki. Örebro er í sjöunda sæti með 12 stig.
Þá var Hlín Eiríksdóttir í byrjunarliði Pitea í 2-0 tapi gegn Linköpings. Lið hennar er í fimmta sæti með 13 stig.