Gabríel Douane Doama, sem strauk frá lögreglunni í Héraðsdómi Reykjavíkur í apríl síðastliðnum, hefur verið dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir rán. Fréttablaðið greinir frá dómnum.
Gabríel var ákærður fyrir að veitast að manni á þrítugsaldri við Kjarvalsstaði í júlí í fyrra. Hann var sakaður um að hafa hótað manninum líkamsmeiðingum og lífláti og í kjölfarið fengið hann til að millifæra alls 892 þúsund krónur inn á sig. Grófleiki verknaðar Gabríels er sagður hafa verið með meira móti.
Í dóminum kemur fram að málið er byggt á myndbandsupptöku en í henni má sjá Gabríel halda á farsíma mannsins og skrá sig inn í hann. Maðurinn reyndi þá að hlaupa í burtu og brást Gabríel við með því að gera sig líklegan til að stöðva eða elta manninn. Þá kemur einnig fram að í upptökunni sjáist greinilega að hnífur stendur upp úr rassvasa Gabríels. Hann reyndi að útskýra fyrir dómi að þetta væri ekki hnífur heldur hárgreiða, það þótti ekki trúverðugt.
Þá er vísað í hljóðupptöku í dómnum en í henni má heyra í Gabríel á meðan á ráninu stóð. Er orðanotkun hans og rödd lýst sem bæði reiðilegri og ógnandi. Hljóðupptakan þykir styðja við framburð mannsins sem var rændur um atvik málsins.
Fjórir aðrir voru ákærðir vegna málsins. Þeir voru þó allir sýknaðir af öllum kröfum ákæruvaldins. Ástæðan fyrir því er sú að það er talsverð óvissa um hver þeirra tók virkan þátt í ráninu.
Eins og fyrr segir var Gabríel dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir brotið en hann var einnig dæmdur til að greiða sakarkostnað málsins. Refsingin er ekki skilorðsbundin sökum alvarleika brotsins.
Gabríel var fyrr á þessu ári dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, fíkniefnalagabrot, brot gegn valdstjórninni og endurteknar líkamsárásir. Þau brot voru framin eftir ránið sem Gabríel hefur nú verið dæmdur fyrir og fékk hann því hegningarauka sem samsvarar þeirri refsingu sem hann hefði fengið ef málin hefðu verið dæmd saman.
Strauk úr Héraðsdómi
Að kvöldi þann 19. apríl síðastliðinn lýsti lögreglan eftir Gabríel eftir að hann strauk úr Héraðsdómi Reykjavíkur þegar mál hans var þar til meðferðar. Málið vakti mikla athygli, ekki síst vegna þess að lögreglan hafði tvívegis afskipti af röngum dreng þegar verið var að leita að Gabríel.
Þann 22. apríl fannst Gabríel í sumarbústað á höfuðborgarsvæðinu. Þar var hann handtekinn og færður í afplánun í fangelsið á Hólmsheiði. Fimm aðrir voru handteknir í tengslum við leitina og voru þeir allir færðir á lögreglustöð til yfirheyrslu. Þeim var síðar sleppt úr haldi lögreglu en rannsókn á meintum þætti þeirra í málinu beinist að því hvort brotamanni hafi verið veitt aðstoð við að losna undan handtöku.