fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Eyjan

Sigmundur segir að vandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sé þríþættur – Hluti vandans sé að leiðtoginn hafi ekki mætt til vinnu mánuðum saman

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 12. maí 2022 07:59

Hildur Björnsdóttir. Skjáskot/Hringbraut.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Traustið er það mikilvægasta í lífi og starfi stjórnmálamanns. Hann þarf að njóta trausts. Án þess hefur hann ekkert erindi í pólitík,“ svona hefst leiðari Fréttablaðsins í dag en hann ber fyrirsögnina „Pólitískt traust“ og er skrifaður af Sigmundi Erni Rúnarssyni ritstjóra.

Hann segir að traust eigi líka við um framboðslista flokkanna fyrir kosningar. Þar skipti trúverðugleikinn mestu máli en hann sé meðal annars mældur á vogarskálum samstöðu, ábyrgðar og stefnufestu.

„Og það er einmitt í sveitarstjórnarkosningum, eins og þeim sem núna fara í hönd, sem þessi atriði skipta sköpum. Kjósendur velja þar fólk sem þeir treysta til að fara vel með völd sín, svo og framboðslista sem eru settir saman af hæfum og samstíga samherjum sem geta unnið með sóma þau umbótastörf sem fram undan eru. Það er líklega í þessu ljósi sem fylgið hrynur af Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík eins og endurteknar skoðanakannanir gefa til kynna. Sá pólitíski landskjálfti sem leikur um hann verður ekki skýrður út með því einu að landsmálin leiki hann grátt,“ segir Sigmundur og bendir á að flokkurinn sé í góðri stöðu í öðrum sveitarfélögum, til dæmis Hafnarfirði þar sem hann haldi sínu eftir átta ára valdatíð.

Því næst víkur hann að vanda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og segir að hann sé þríþættur: „Listi flokksins er settur saman af fólki sem talar út og suður í sinni pólitík, en klofningur innan flokksins er orðinn að viðvarandi vandamáli innan hans raða. Í annan stað enduróma niðurrifsraddirnar innan úr innstu kimum flokksins í huga alls almennings, en lykilmenn úr röðum hans hafa aldrei getað á heilum sér tekið eftir að vinstrimenn hrifsuðu af þeim völdin og hófu að stunda samráðspólitík sem er eitur í beinum íhaldssamra afturhaldsseggja. Og í þriðja lagi hefur hinn nýi leiðtogi flokksins í Reykjavík ekki staðið undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar, en hann virðist beinlínis vera hornreka í flokknum og er meira að segja óvíst að hann njóti stuðnings flokksforystunnar.“

Því næst víkur hann að fundarsókn leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Hildar Björnsdóttur, og segir: „Þá verður ekki hjá því litið að sama manneskja, sem starfað hefur sem borgarfulltrúi á kjörtímabilinu sem senn er að baki, hefur ekki mætt til vinnu sinnar svo mánuðum skiptir. Skýringin á því er aukaatriði þegar haft er í huga að ekkert fer sennilega meira í taugarnar á íslenskri þjóð en að hirða laun fyrir óunna vinnu. Um aldir hafa Íslendingar mælt iðjusemi sína í viðveru á vinnustað. Og þar hefur engin breyting orðið á þótt heimsfaraldur með heimavinnu hafi skekið þjóðlífið um stund.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan