Krónprinshjónin sendu frá sér yfirlýsingu í síðustu viku vegna málsins en margir fjölmiðlar höfðu velt því upp hvort það sé við hæfi að verðandi þjóðhöfðingi stundi nám við skólann í ljósi þess sem hefur komið fram að undanförnu.
Hneykslismál skekur dönsku yfirstéttina – Krónprinshjónunum er illa brugðið
Í gær var síðan röðin komin að Jóakim og Alexöndru greifynju að senda frá sér tilkynningu vegna málsins. Eldri sonur þeirra, Nikolai prins, stundaði nám við skólann fyrir nokkrum árum.
Í viðtali við Klaus Eusebius, sem var vikið úr starfi skólastjóra fyrir nokkrum dögum, á TV2 í vikunni sagði hann að Nikolai hafi verið vísað tímabundið úr skólanum á sínum tíma vegna brots á reglum skólans um áfengisneyslu.
Það voru þessi ummæli skólastjórans fyrrverandi sem Jóakim og Alexandra brugðust við í gær.
„Sem foreldrar fyrrum nemanda við Herlufsholm þá erum við – svo það sé sagt á góðri dönsku – brjáluð yfir að sjá að sonur okkar er nafngreindur opinberlega af Klaus Eusebius Jakobsen, fyrrum skólastjóra,“ segir í tilkynningu þeirra.
Þau segja síðan að Eusebius hafi brugðist trausti og trúnaði við Nikolai og ekki megi nota brot Nikolai og þá refsingu sem hann hlaut til að beina athyglinni frá þeim alvarlegu atburðum sem skýrt hefur verið frá að undanförnu.
Það var í viðtali við TV2 á sunnudaginn sem Eusebius sagði að ekki væri gerður greinarmunur á nemendum skólans eftir stöðu þeirra og í því sambandi kom nafn Nikolai prins upp.