Vagnstjóri sem ekur leið 19 í Hafnarfirði er sakaður um óeðlilega hegðun við börn, dónaskap og andlegt ofbeldi. Hann er sagður taka myndir af börnum innan og utan vagnsins, taka upp á því að hleypa börnum ekki inn í vagninn, eða henda þeim út úr vagninum áður en á áfangastað er komið. Hann sagður vera með óeðlilega afskiptasemi af börnum, t.d. þegar hann segir þeim að þau eigi að fara heim til sín þegar klukkan er orðin tíu á kvöldin.
Hjón í Hafnarfirði sem eiga tíu ára dóttur ræddu málið við DV og faðirinn sagði frá einu sérkennilegu uppátæki vagnstjórans:
„Hérna hjá Dalhúsum er hoppubelgur þar sem krakkar koma saman og leika sér. Hann stoppar þarna rétt við belginn og er bara að taka myndir af krökkunum þarna.“
Eiginkona mannsins segir að sér finnist þetta vera óeðlileg og perraleg framkoma. „Hann er að neita krökkum að koma inn í strætó og er að kasta krökkum út úr vagninum hér og hvar í Hafnarfirði. Í dag var 10 ára stúlka sem átti að fara í fimleika og hann rak hana út úr vagninum á miðri leið að ástæðulausu,“ heldur maðurinn áfram.
Hann segir að margir foreldrar í Hafnafirði hafi kvartað undan manninum við Strætó en ekkert hafi verið gert. „Ég hringdi í þá alveg brjálaður um daginn og æsti mig. Ég sagðist fara með þetta lengra ef ég heyrði ekki frá þeim og ég gerði það, ég hafði samband við ykkur á DV.“
Eitt af því sem vagnstjórinn er sagður gera er að segja börnunum að þau eigi að greiða fargjald eftir kl. 8 á kvöldin. Þetta sé hins vegar alrangt enda ókeypist fyrir 10 ára og yngri í strætó.
„Þessi maður er ekki starfi sínu vaxinn,“ segja hjónin og krefjast þess að maðurinn verði stöðvaður. „Við eigum tíu ára stelpu sem hefur verið að nota strætó til að fara í sund og skólann og þess háttar og þetta er orðið þannig að hún þorir ekki lengur í strætó. Við höfum verið að tala við fleiri foreldra og það eru sömu sögurnar frá mörgum.“
Bílstjórinn er af erlendu bergi brotinn og á miðjum aldri, að sögn hjónanna.
„Miðað við þessar lýsingar er þessi starfsmaður kominn langt út fyrir sitt starfsvið og almenna skynsemi, það hljómar þannig, þetta er gríðarlega óviðeigandi,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, er DV bar þessar lýsingar undir hann. Hann kannaðist hins vegar ekki við málið en sagðist munu kynna sér það eins fljótt og auðið væri.
Guðmundur hafði síðan samband við starfsmann hjá verktakanum sem sér um akstur á leið 19, sem og starfsmannastjóra hjá Strætó, en hvorugt þeirra kannaðist við málið. Aðspurður hvort eitthvað kynni þá að vera að upplýsingastreyminu innan Strætó sagði Guðmundur að það mætti gjarnan athuga hvort þar megi bæta úr.
„Að sjálfsögðu tökum við svona ábendingar mjög alvarlega og þetta er eitthvað sem þarf að skoða sérstaklega,“ sagði Guðmundur.