Óhætt er að segja að allt sé á suðupunkti í heimi akstursíþrótta á Íslandi eftir að þrír klúbbar höfnuðu því að greiða fyrir beina útsendingu frá torfærukeppnum á RUV.
Akstursíþróttaklúbbarnir Bílafélag Akureyrar, Kvartmíluklúbburinn og START sendu frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem kemur fram að torfærusumarið 2022 hafi farið vel af stað með tveimur keppnum um síðustu helgi. Þær hafi báðar verið í beinni útsendingu og mælst vel fyrir.
Nú hafi Bragi Þórðarson, sem sér um þættina Mótorsport á RUV, leitast eftir því að senda beint út frá þeim torfærukeppnum sem eftir eru í sumar „en lagt upp með forsendur sem eru ekki ásættanlegar fyrir okkur keppnishaldarana. Við hyggjumst því ekki kaupa af honum þá þjónustu sem hann hefur boðið okkur. Umfjöllun um keppnirnar í Ríkissjónvarpinu er þar að auki skilyrt greiðslum frá klúbbunum af hálfu Braga svo óvíst er hvort sú umfjöllun sem verið hefur þar síðastliðin ár mun verða í boði í sumar,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá segir að þeir vilji veg torfærunnar sem mestan og „erum mjög samstíga í því að tryggja að myndefni af öllum keppnum sé aðgengilegt og helst til birtingar án þess að áhorfendur þurfi að greiða klúbbunum eða fyrirtækjum fyrir það sérstaklega. Með það að markmiði bjóðum við velkomna bæði ljósmyndara og videotökufólk á allar keppnirnar sem fá að taka upp sitt efni endurgjaldslaust. Þar með talið fulltrúa sjónvarpsstöðvanna hafi þeir áhuga á því að fá sitt eigið efni til birtingar.“
Forsvarsmenn félaganna telja að þeim markmiðum um að myndefni frá íslensku torfærunni farið sem víðast sé hægt að ná án þess að greiða þriðja aðila fyrir útsendingu.
„Við hlökkum til að sjá ykkur í brekkunum og treystum því að þið njótið þess að horfa á keppnirnar hvar sem best hentar þegar ljósmynda- og videomyndatökufólkið okkar gefur út sitt efni sem öllum stendur til boða endurgjaldslaust,“ segir í yfirlýsingunni.
Bragi hefur nú brugðist við þessari yfirlýsingu og svarar henni í Facebookhópnum Mótorsport. Þar segir hann að allir sem hann þekkja viti að það hafi verið hans aðalmarkmið síðan 2015 að auka umfjöllun um íslenskar fjórhjóla akstursíþróttir, og það hafi hann gert bæði á RUV en einnig erlendis, í útvarpi, hlaðvarpi og með kynningarefni á netinu. Á síðasta ári hafi hann síðan byrjað að vinna með Skjáskoti ehf. við að framleiða beinar útsendingar af torfæru og rallíkrossi.
„Nú þegar ég er að byrja mitt áttunda ár með Mótorsport þættina á Rúv datt mér í hug að biðja klúbbana sem halda keppnirnar sem ég fjalla um, um 100.000 kr. fyrir þá umfjöllun sem ég veiti þeim og hef glaður veitt þeim síðustu 7 árin. Þættirnir og umfjöllun í fréttum hefur aldrei komist nálægt því að standa undir kostnaði miðað við tímann og vinnuna sem fer í þá, og meira að segja með þessum auka 100.000 kr. myndi það heldur ekki gera það.
Ef það kemur á daginn að klúbbar geta ekki/hafa ekki áhuga á að borga fyrir þessa umfjöllun gæti ég þurft að endurskoða þessa hugmynd mína og halda þá áfram að gera þættina fyrir alltof lítinn pening, eða bara hætta þessu öllu saman og snúa mér að öðru. Mér persónulega finnst þetta ekki há upphæð fyrir þessa umfjöllun en kannski er ég bara að verða of gráðugur, ef svo er biðst ég innilegrar afsökunar á því,“ segir í svari Braga.
Hann tekur fram að það hafi aldrei í viðræðum sínum við keppnishaldara komið fram að hann myndi ekki sína frá keppninni á RUV ef hann fengi ekki að vera í beinni. „Þessir hlutir tengjast ekkert. En vissulega bauð ég keppnishöldurum 100.000 krónur fyrir að sýna beint frá keppninni í lokaðri dagskrá (s.s. áhorfendur þyrftu að borga fyrir streymið). Þannig að umfjöllun á Rúv ásamt beinni útsendingu myndi koma út á núlli fyrir klúbbinn.“
Hann bætir síðan við: „Það kom til tals síðasta haust að einn klúbbanna sem undir yfirlýsinguna skrifuðu væri mjög ósáttur við að fá ekki umfjöllun á Rúv þar sem styrktaraðilar gerðu ráð fyrir því. Af hverju gera styrktaraðilar ráð fyrir umfjöllun á Rúv? Það sem ég set í mína þætti er alfarið undir mér komið, ég hef aldrei gert samning við hvorki AKÍS né nokkurn klúbb um að sýna frá eitthverri ákveðinni keppni. Nú ef það er svo sjálfsagt að ég fjalli um keppni í Mótorsport þáttunum er þá ekki sjálfsagt að athuga hvort klúbburinn geti hjálpað með fjármögnun þess þáttar?“
Gríðarlega skiptar skoðanir eru um þessi mál og hafa líflegar umræður skapast á samfélagsmiðlum.
Einn segir:
„Er ekki akkúrat pointið að það eru komnir fullt af öðrum aðilum með tæki, tíma og getu til að sinna ÖLLU mótorsporti sem á ekki að mismuna fyrir eina aðilann sem hefur ítök innan RÚV og handvelur hvaða sport fær mesta umfjöllun.
Það þarf augljóslega að gæta jafnræðis og ef það á að borga einum aðila væri réttast að borga öllum og hví ætti að hygla undir einn framleiðanda sem einblínir á tæki á fjórum hjólum en ekki allt mótorsport einsog reynsla síðustu áratuga og ummæli þín hér að ofan sanna?“
Annar segir:
„Mér finnst ekkert ósanngjarnt að til komi einhverjar greiðslur. Hef ekki skoðun á hvort100 á klubb er mikið eða litið. En munum bara hvernig deilumálin kringum aldamótin enduðu. Förum ekki þangað aftur. Það dró torfæruna niður um nokkur ár að mínu mati.“
Og sá þriðji:
„Það þarf einstakling með sérstaka hæfileika til að fara vel með efni fyrir fjölmiðil, sérstaklega lifandi umfjöllun. Það gerði Birgir Þór Bragason og það gerir Bragi Þórðarson.
Það er bara hægt að halda áfram ákveðið lengi af áhugasemi án teljandi launa en svo kemur að því að menn þurfa sitt eða að snúa sér að öðru.
Mér þykir ótrúlegt að lesa þetta núna rúmum 20 árum eftir að íslenskt mótorsport sprakk úr ósætti, einmitt vegna fjölmiðlamála. Ég hefði haldið að keppendur og keppnishaldarar hefðu lært mikilvægi vandaðrar fjölmiðlunar á þessum tíma.
Ég vona svo sannarlega ykkar allra vegna, sérstaklega keppenda vegna, að þið ræðið þetta og komist að bróðurlegri niðurstöðu.
Yfirlýsing þessara klúbba gefur til kynna að fjölmiðlafólk bíði í röðum til að komast að til að geta fjallað um keppnir. Ég hefði haldið að allir tengdir sportinu myndu síðan um aldamótin að það er alls ekki svo.“