Greg Joswiak, varaforstjóri alþjóðamarkaðssetningar hjá Apple, segir á heimasíðu fyrirtækisins að andi iPod muni lifa áfram. Búið sé að fella ótrúlega tónlistarupplifun inn í margar af vörum fyrirtækisins. Allt frá iPhone til Apple Watch til HomePod Mini. Auk þess sé boðið upp á slíka upplifun í Mac, iPad og Apple TV.
Frá því að iPod kom á markað 2001 hafa margar álíka vörur frá öðrum keppinautum komið fram á sjónarsviðið. En með tilkomu tónlistarveitna á borð við Spotify dró úr áhuga fólks á iPod og álíka tækjum.
Fyrsta útgáfa iPod gat geymt 1.000 lög og rafhlaðan dugði í 10 klukkustundir. Nýjasta útgáfan af iPod touch kom á markað í maí 2019.