The Guardian segir að á vefmiðlinum Lentra.ru hafi verið birtar rúmlega 40 greinar þar sem Pútín var gagnrýndur. Hann var meðal annars kallaður „vesæll, taugaveiklaður einræðisherra“ og sakaður um að standa fyrir „blóðugasta stríði 21. aldarinnar“. Þess utan var hann sakaður um að ljúga að almenningi um stríðið og fyrir að skilja fallna rússneska hermenn eftir í Úkraínu.
Greinarnar voru síðan teknar úr birtingu.
The Guardian segir að tveir blaðamenn hafi staðið á bak við greinarnar. Annar þeirra er Egor Polyakov sem sagði að ekki sé lengur hægt að sætta sig við stöðu mála. „Þetta er ekki það sem Sigurdagurinn snýst um. Venjulegt fólk deyr, friðsamar konur og börn deyja í Úkraínu. Miðað við orðræðuna virðist ekki sem þessu ætli að linna,“ sagði hann að sögn The Guardian.
Valentyna Shapovalova, sem er nýdoktor við Kaupmannahafnarháskóla og rannsakar rússneska fjölmiðla, sagðist í samtali við Danska ríkisútvarpið hafa séð 20 fyrirsagnir á greinum sem voru á forsíðu Lentra.ru í skamma stund. Hún sagði erfitt að segja til um hversu mikil áhrif þetta hafi haft. Fólk hafi verið undir það búið að það kæmi „áróður“ og „rangar upplýsingar“ frá Vesturlöndum og því sé erfitt að brjótast í gegnum þær varnir sem hafa verið byggðar upp í huga þess, fólk sé komið með ákveðna heimsmynd, heimsmynd sem falli vel að heimsmynd rússneska ríkisins.
Hún sagði einnig að greinar af þessu tagi birtist reglulega í rússneskum netmiðlum.. Til dæmis á vef Tass og RIA. Þær séu þó alltaf fjarlægðar fljótlega og skrifað að um „mistök“ hafi verið að ræða. „Rússneskir fjölmiðlar eru áróðursverksmiðja, allar sögur eiga að passa inn í heildarmyndina,“ sagði hún.