Fabinho fór meiddur af velli eftir hálftíma leik í viðureign Aston Villa og Liverpool en liðin takast á í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Staðan er 2-1 fyrir Liverpool þegar 65 mínútur eru liðnar af leiknum. Douglas Luiz kom Villa mönnum yfir eftir aðeins þrjár mínútur en Joel Matip jafnaði metin stuttu síðar. Sadio Mane var að koma gestunum yfir með skalla eftir fyrirgjöf frá Luis Diaz.
Jordan Henderson kom inn á í stað Fabinho en sá síðarnefndi virðist vera að glíma við meiðsli á nára.
Jurgen Klopp gerði fimm breytingar á liði sínu í kvöld frá því í leiknum gegn Tottenham á laugardag en Liverpool mætir Chelsea í úrslitum ensku bikarkeppninnar um næstu helgi.