fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Vísa því á bug að hafa þaggað niður meinta áreitni skólastjórnanda, sem jafnframt er formaður bæjarráðs

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 10. maí 2022 10:18

Fríða Stefánsdóttir t.h. er formaður bæjarráðs og deildarstjóri við Sandgerðisskóla

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undanfarið hefur verið fjallað um mál sem kom upp við lok síðasta árs í Sandgerðisskóla þar sem sem deildarstjóri, sem um tíma leysti af sem aðstoðarskólastjóri, er sakaður um að hafa kynferðislega áreitt undirmann, 19 ára dreng sem var 18 ára þegar meint brot áttu sér stað. Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa í umræðunni verið sökuð um óeðlileg afskipti að málinu og að hafa reynt að þagga það niður. Þessum ásökunum neita bæjaryfirvöld í yfirlýsingu sem birtist á vef þeirra í morgun.

Sakar meintan þolanda um lygar

Málið hefur vakið nokkra athygli þar sem meintur gerandi, Fríða Stefánsdóttir, er ásamt því að vera deildarstjóri kjörinn fulltrúi í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar fyrir hönd Jákvæðs samfélags, formaður bæjarráðs.

Drengurinn hefur sakað bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ um óeðlileg afskipti að málinu. Lagt hafi verið að honum að kæra málið ekki til lögreglu sem og að bæjaryfirvöld hafi hótað honum brottrekstri ef hann fjarlægði ekki færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann greindi frá málinu.

Sjá einnig: Deildarstjóri við grunnskóla sökuð um kynferðislega áreitni í garð ungs samstarfsmanns – Bæjaryfirvöld „hótuðu mér brott­rekstri“

Lögmaður Fríðu, Steinbergur Finnbogason, gaf það út um helgina að Fríða ætli sér að kæra drenginn fyrir rangar sakargiftir og fer nú tveimur sögum af því sem átti sér stað á sáttafundi milli aðila málsins. Trúnaðaraðili drengsins segir að á sáttafundi hafi Fríða játað brot sín að hluta en í kjölfar fundar hafi farið að stað sögur um að á fundi hefði þolandi dregið frásögn sína til baka og gengist við lygum. Það sé ekki rétt.

Sjá einnig: Móðursystir meints þolanda í Sandgerði stígur fram – Birtir skjáskot með samskiptum konunnar og drengsins

Lögmaður Fríðu hefur haldið því fram að á fundinum hafi meintur þolandi skrifað undir afdráttarlausa viðurkenningu á að hið meinta kynferðisofbeldi hafi aldrei átt sér stað heldur, gegn því að Fríða viðurkenndi að hafa hagað sér með óviðeigandi hætti gagnvart meintu þolanda í tilteknum gleðskap sem var ótengdur vinnustaðnum og farið þar yfir tilhlýðileg mörk í samskiptum. Trúnaður um þessa sátt hafi verið rofinn þegar trúnaðarmaður drengsins fór með ásakanir í fjölmiðla.

Rétt er að taka fram að drengurinn kærði málið til lögreglu en rannsókn var felld niður þar sem ekki þóttu nægilega sterkar sannanir, þess í stað var aðilum boðin upp á sáttameðferð í málinu með lögmönnum en líkt og áður segir fer tveimur sögum af því hvað átti sér stað á téðum fundi.

Óskað eftir viðbrögðum bæjaryfirvalda

DV sendi ítarlega fyrirspurn á bæjarstjóra Suðurnesjabæjar vegna málsins, Magnús Stefánsson. Spurningarnar sem lagðar voru fyrir bæjarstjóra voru eftirfarandi:

  • Meintur þolandi í málinu hefur gagnrýnt bæjaryfirvöld vegna þeirra aðkomu að málinu. Greinir hann frá því að bæjaryfirvöld hafi lagt að lögmanni meints þolanda að fjarlægja færslu af samfélagsmiðlum, ellegar yrði meintur þolandi rekinn úr starfi sínu. 
    • Átti þetta sér stað, og ef já – hvernig útskýrir Suðurnesjabær slík afskipti að málinu?
    • Metur bærinn það svo að hægt sé að reka fólk úr starfi vegna ásakana sem þeir opna sig um á samfélagsmiðlum? 
  • Móðir drengsins greindi frá því að bæjaryfirvöld hafi staðið fyrir fundi vegna málsins þar sem meintur þolandi var hvattur til að kæra ekki. 
    • Átti þessi fundur sér stað?
    • Hverjir sátu þann fund fyrir hönd bæjarins og hvers vegna var verið að hvetja meintan þolanda brots gegn almennum hegningarlögum til að leita ekki til lögreglu? 
  • Var umræddur kjörinn fulltrúi sendur í leyfi frá störfum sínum í bæjarstjórn á meðan á rannsókn málsins stóð? 
  • Hvaða vinnuferlum beitir bærinn í tilvikum þar sem kjörinn fulltrúi er sakaður um hegningarlagabrot? 
  • Fréttablaðið greindi frá því í frétt með vísan til heimilda að skólastjórnendur Sandgerðisskóla hafi viljað ganga lengra í málinu en bæjaryfirvöld hafi stoppað það – hvernig bregstu við þeirri ásökun?  
  • Ef til stendur að svara einhverju ofangreindu með vísan til þess að bærinn tjái sig ekki um einstök málefni einstakra starfsmanna
    • Telur þú réttlætanlegt fyrir bæjaryfirvöld, sem opinberlega hafa verið sökuð um að letja meintan þolanda kynferðislegrar áreitni frá því að kæra, að svara ekki fyrir meinta aðkomu sína að málinu? Sérstaklega þar sem um er að ræða kjörinn fulltrúa og formann bæjarráðs? 

Erfitt að bregðast við umfjöllun vegna þagnarskyldu

Magnús svaraði ofangreindu með því að vísa í yfirlýsingu á vef Suðurnesjabæjar um málið sem birtist í dag. Þar neitar Suðurnesjabær að hafa haft óeðlileg afskipti að málinu og stunda þöggun:

„Undanfarnar vikur hafa fjölmiðlar fjallað  um mál  í Sandgerðisskóla sem tengist tveimur starfsmönnum sveitarfélagsins. Í sumum tilfellum hefur viðbragða sveitarfélagsins eða skólans verið leitað af hálfu fjölmiðla eða þess óskað að sveitarfélagið svaraði tilteknum spurningum um atvik málsins eða meðferð þess.

Suðurnesjabær getur almennt ekki upplýst opinberlega um atvik eða meðferð slíkra mála, eða svarað spurningum fjölmiðla þar um enda er starfsfólk sveitarfélagsins bundið þagnarskyldu samkvæmt 57. gr. sveitarstjórnarlaga. Sveitarfélaginu er því óhægt um vik að bregðast við gagnrýni eða staðhæfingum í fjölmiðlum en telur þó rétt að koma eftirfarandi á framfæri.

Suðurnesjabær hefur það að leiðarljósi að sveitarfélagið sé eftirsóknarverður vinnustaður þar sem fagmennska, samvinna og virðing sé leiðarljós starfsmanna í daglegu starfi.

Hjá sveitarfélaginu er lögð áhersla á að byggja upp heilbrigt og öruggt vinnuumhverfi starfsmanna þar sem hver og einn starfsmaður nýtur sín. Hvers konar mismunun, einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustöðum sveitarfélagsins er ekki liðin.

Þegar upp koma tilfelli þar sem grunur er um óviðeigandi háttsemi af hálfu starfsmanna sveitarfélagsins gagnvart starfsmanni er brugðist við því samkvæmt verkferlum sveitarfélagsins og ákvæðum reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Við formlega könnun slíkra mála ber sveitarfélaginu að komast að niðurstöðu um það hvort háttsemi hafi falið í sér einelti, kynferðislega eða kynbundina áreitni eða ofbeldi. Sé það niðurstaðan er í framhaldinu brugðist við til samræmis með það að markmiði að stöðva eða koma í veg fyrir slíka háttsemi.

Eðli málsins samkvæmt er upplifun aðila um háttsemi, atvik, eða málsmeðferð oft ólík. Við formlega könnun er því nauðsynlegt að upplýsa málsatvik eins og framast er kostur meðal annars með því að afla upplýsinga hjá aðilum og veita þeim kost að koma sjónarmiðum sínum að. Við málsmeðferðina ber sveitarfélaginu jafnframt á grundvellli ólögfestra málsmeðferðarreglna sveitarstjónarréttar að gæta sérstaklega að hlutlægni og jafnræði aðila.

Meðferð slíkra mála er því vandmeðfarin og reynt að gæta að því í hvítvetna að sýna aðilum nauðsynlega nærgætni og veita þeim aðstoð og stuðning sem þörf er hverju sinni þ.m.t. með aðstoð fagfólks.

Í umfjöllun fjölmiðla um framangreint mál hefur komið fram gagnrýni á málsmeðferð sveitarfélagsins ásamt því að staðhæft hefur verið að reynt hafi verið að þagga málið niður, að letja aðila til að kæra málið til lögreglu eða að hóta brottrekstri vegna færslu á samfélagsmiðlum. Þessar fullyrðingar eiga sér hins vegar enga stoð og því óhjákvæmilegt að leiðrétta þær enda hefur við meðferð málsins verið gætt að þeim lögbundnu skyldum sem á sveitarfélaginu hvíla.

Að öðru leyti mun Suðurnesjabær ekki tjá sig frekar um framangreint mál.“

Þagnarskyldan

Umrætt þagnarskylduákvæði sveitarstjórnarlaga, sem í yfirlýsingu er vísað til, vísar til kafla stjórnsýslulaga sem fjallar um tjáningarfrelsi, þagnarskyldu og fleira. Þar segir að að hver sá sem starfi á vegum ríkis eða sveitarfélaga hafi frelsi til að tjá sig opinberlega um atriði er tengjast starfi hans, svo lengi sem þagnar-, trúnaðar- eða hollustuskyldur standi því ekki í vegi. Þar kemur eins fram: „Undir þagnarskyldu falla ekki uppblýsingar um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi starfsmanna stjórnvalda.“

Þagnarskyldan gildir um upplýsingar sem eru trúnaðarmerktar á grundvelli laga eða annarra reglna, eða að öðru leyti nauðsynlegt að halda leyndum til að vernda verulega opinbera hagsmuni eða einkahagsmuni. Í lögunum má þó einnig finna ákvæði sem kveður á um að þegar upplýsingar, sem háðar eru þagnarskyldu, hafa verið gerðar opinberar á löglegan hátt, svo sem þegar aðilar hafa sjálfir opinberað upplýsingar um sig – þá fellur þagnarskyldan niður. Í málinu hafa bæði lögmaður Fríðu sem og þolandi sjálfur og aðilar tengdir honum tjáð sig um umræddan fund sem fór fram. Því mætti ætla að lög stæðu ekki í vegi fyrir því að bæjaryfirvöld Suðurnesja svari spurningum um umræddan sáttafund.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg