Íslandsmeistarar Vals fengu Keflvíkinga í heimsókn í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld. Leiknum lauk með 3-0 sigri Valskvenna en öll mörkin komu í síðari hálfleik.
Elísa Viðarsdóttir braut ísinn á 56. mínútu eftir þríhyrningaspil við Þórdísi Hrönn Sigfúsdóttur og Ída Marín Hermannsdóttir tvöfaldaði forystu Valskvenna fimm mínútum síðar eftir aðra stoðsendingu frá Þórdísi.
Elín Metta Jensen gerði endanlega út um leikinn með marki á 70. mínútu og lokatölur 3-0. Bæði lið eru með sex stig eftir þrjár umferðir.
Valur 3 – 0 Keflavík
1-0 Elísa Viðarsdóttir (’56)
2-0 Ída Marín Hermannsdóttir (’61)
3-0 Elín Metta Jensen (’70)
Selfyssingar fengu Þrótt R. í heimsókn. Andrea Rut Bjarnadóttir náði forystunni fyrir gestina strax á fyrstu mínútu en Brenna Lovera jafnaði metin fyrir Selfoss á 66. mínútu eftir sendingu frá Barbáru Sól Gísladóttur og þar við sat og lokatölur 1-1 jafntefli. Selfoss er með sjö stig eftir þrjár umferðir en Þróttur R. er með fjögur stig.
Selfoss 1 – 1 Þróttur R.
0-1 Andrea Rut Bjarnadóttir (‘1)
1-1 Brenna Lovera (’66)
Þá tók Breiðablik á móti Stjörnukonum í Kópavoginum í síðasta leik kvöldsins í Bestu deild kvenna. Leiknum lauk með 3-0 sigri Blika.
Melina Ayres slapp inn fyrir vörn gestanna á 42. mínútu og afgreiddi boltann snyrtilega í netið og staðan 1-0 í leikhléi. Birta Georgsdóttir kom Blikum í 2-0 með glæsilegu marki á 51. mínútu. Blikar fengu svo dæmda vítaspyrnu á 63. mínútu. Ayres fór á punktinn og skoraði annað mark sitt í leiknum og þriðja mark Blika, lokatölur 3-0.
Breiðablik jafnaði sig á tapinu gegn Keflavík í síðustu umferð með sannfærandi sigri í kvöld en liðið er með sex stig eftir þrjá leiki. Stjarnan er með fjögur stig.
Breiðablik 3 – 0 Stjarnan
1-0 Melina Ayres (’42)
2-0 Birta Georgsdóttir (’51)
3-0 Melina Ayres (’63, víti)