Grímuklæddir þjófar brutust inn á heimili Tahith Chong, á dögunum á meðan hann var sofandi. Leikmaðurinn er í eigu Manchester United en er nú á láni hjá Birmingham.
Þjófarnir ógnuðu Chong með hníf og stálu eignum að verðmæti þúsunda punda. Þar á meðal skartgripum, úrum og töskum. Þjófarnir gerðu mikið grín að lélegu öryggiskerfi Chong á meðan ránið átti sér stað.
Þetta er fimmta innbrotið sem á sér stað hjá leikmönnum á Manchester svæðinu frá jólum. Unnusta Chong hefur nú opnað sig um þessa lífsreynslu.
„Ég hélt ég væri að vakna upp við martröð, ég skalf öll. Eftir nokkrar mínútur áttaði ég mig á því að þetta væri að gerast,“ segir Rianna Taylor.
„Einn þeirra hótaði okkur með stórum hníf, annar reif í ökkla Tahith og reif hann úr rúminu. Sá þriðji reif upp hafnaboltakylfu sem hann veifaði við andlit okkar. Hann öskraði og vildi fá úrin okkar.“
„Þeir hótuðu að búta okkur í sundur ef við myndum ekki segja þeim hvar úrin væru. Þeir tóku símana okkur, þeir tóku Rolex úrið mitt og Louis Vuitton töskuna.“
Taylor segist ekki sofa eftir atvikið. „Ég hef ekki sofið vel eftir atvikið, ég verð að hafa kveikt ljós til að sofna.“