Bild skýrir frá þessu. Fram kemur að konan og maðurinn hafi átt í kynferðislegu sambandi en konan hafi vilja meira en það. Í von um að verða ólétt stakk hún því göt á smokka mannsins.
Fólkið kynntist á síðasta ári í gegnum stefnumótaapp. Fljótlega hófst kynferðislegt samband þeirra en konan vildi meira en það frá manninum sem er 42 ára. Hún byrjaði því að stinga göt á smokka mannsins í þeirri von að verða barnshafandi og þannig yrði meira úr sambandi þeirra.
Þegar þau fóru að eiga í erfiðleikum í sambandinu viðurkenndi konan þetta fyrir manninum í skilaboðum sem hún sendi honum: „Ég stakk göt á smokkana. Ég reikna með að ég sé ólétt.“
Maðurinn kærði konuna og hún var ákærð fyrir kynferðisofbeldi. Hún var sakfelld á grunni lagaákvæðis sem kveður á um að það sé kynferðisofbeldi ef smokkur er fjarlægður í samförum án samþykkis hins aðilans. Dómarinn sagði að þessi regla ætti einnig við í þessu máli því smokkarnir hafi verið gerðir gagnslausir án samþykkis mannsins og gegn vilja hans.