Þarna var hann að svara ummælum Devin Nunes, forstjóra samfélagsmiðilsins Truth Social, sem er í eigu Donald Trump, um að Musk hafi keypt Twitter eftir hvatningu frá Trump.
„Trump sagði í raun og veru við Elon Musk að hann skyldi kaupa. Markmið fyrirtækis okkar er að byggja miðil þar sem fólk er í fjölskylduvænu og öruggu umhverfi. Þess vegna hvöttum við Elon Musk til að kaupa, því einhver verður að taka slaginn við tæknirisana,“ sagði Nunes í samtali við Fox News.
Hann sagði síðan að Trump vildi að bandarískur almenningur fengi rödd sína aftur og að Internetið væri frjálst.
Trump var útilokaður frá Twitter í kjölfar lyga hans um að rangt hefði verið haft við í forsetakosningunum 2020 og hvatningar hans til ofbeldis.
Í kjölfar kaupa Musk á Twitter hafa verið uppi vangaveltur um hvort hann muni hleypa Trump aftur að lyklaborðinu á Twitter. Musk hefur ekki enn tjáð sig um það.
En hvað varðar fyrrgreind ummæli Nunes sagði Musk: „Ég hef ekki átt nein samskipti, bein eða óbein, við Trump sem hefur sagt opinberlega að hann muni aðeins nota Truth Social.“