Manchester City er komið með þriggja stiga forskot á Liverpool á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa rúllað yfir Newcastle á heimavelli í dag.
Raheem Sterling kom City yfir eftir tæpar 20 mínútur. Aymeric Laporte bætti svo við marki á 38. mínútu og staðan í hálfleik var 2-0.
Rodri gulltryggði sigur heimamanna með marki á 61. mínútu.
Englandsmeistararnir bættu svo við tveimur mörkum í blálokin. Phil Foden skoraði fjórða markið á 90. mínútu áður en Sterling skoraði sitt annað mark í uppbótartíma. Lokatölur 5-0.
Sem fyrr segir er City á toppi deildarinnar, nú með 86 stig. Ásamt því að vera með þremur stigum meira en Liverpool er markatala liðsins nú fjórum mörkum betri en hjá lærisveinum Jurgen Klopp eftir stórsigurinn í dag.
Newcastle er í þrettánda sæti með 43 stig.