fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
EyjanFastir pennar

Kjósum borgarstjóra beinni kosningu

Eyjan
Laugardaginn 7. maí 2022 18:50

Ráðhús Reykjavíkur.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú er aðeins tæp vika til sveitarstjórnarkosninga og aldrei að vita nema baráttan fari að hefjast hér í Reykjavík en eins og sakir standa stefnir í áframhaldandi vinstrimeirihluta borgarstjórnar undir forsæti Dags B. Eggertssonar.

Borgarstjóraembættið nýtur talsverðrar sérstöðu í stjórnkerfinu enda aðeins ein eiginleg borg hér á landi, svo miklu stærri en önnur sveitarfélög. Í reynd er Ísland borgríki og ekki óvarlegt að kalla allt landnám Ingólfs borgarsvæði — vestur í Borgarfjörð og austur í sveitir — enda eitt atvinnusvæði. Þennan landshluta þyrfti gjarnan að hugsa betur sem eina heild — jafnvel með einum yfirborgarstjóra þar sem lagðar yrðu stóru línurnar en aðrar ákvarðanir teknar í nærumhverfi borgaranna — í minni stjórnsýslueiningum en núverandi Reykjavíkurborg — enda er hún á ýmsan hátt fullstór á íslenskan mælikvarða. Nágrannasveitarfélögin bjóða aftur á móti upp á meiri og lífrænni tengsl milli borgaranna og yfirvalda.

Borgarstjórakjörið 1920

Borgarstjóraembættið í Reykjavík var stofnað 1907 og að loknum bæjarstjórnarkosningum 1908 var embættið auglýst laust til umsóknar. Í kjölfarið kusu bæjarfulltrúar milli umsækjanda og fyrir valinu varð Páll Einarsson. Hann var ráðinn borgarstjóri til sex ára en afréð að láta af störfum eftir þann tíma. Þá tók við Knud Zimsen sem lengst allra hefur gegnt embætti borgarstjóra, eða í átján ár (1914–1932). Geir Hallgrímsson hefur setið næstlengst á borgarstjórastóli eða í þrettán ár (1959–1972) og Gunnar Thoroddsen var borgarstjóri tólf árin þar á undan (1947–1959).

Þegar sex ára skipunartími Knuds Zimsen var á enda 1920 hafði lögum verið breytt í þá veru að kjósa skyldi borgarstjóra í almennri atkvæðagreiðslu bæjarbúa. Í framboði voru Knud og Sigurður Eggerz, fyrrv. ráðherra Íslands. Hart var tekist á í aðdraganda borgarstjórakjörs, baráttan heiftúðug og persónuleg. Ásakanir í garð Knuds gengu svo langt að góður vinur hans, séra Friðrik Friksson, stofnandi KFUM, tók til varna og ritaði grein Knud til stuðnings en þetta var í eina sinn sem séra Friðrik blandaði sér í stjórnmál. Svo fór að Knud hlaut 1.760 atkvæði en Sigurður 1.584.

Sex árum síðar gaf Knud aftur kost á sér en í það skiptið var hann sjálfkjörinn. Í kjölfarið var lögum breytt og horfið frá sérstöku borgarstjórakjöri. Og þegar Knud Zimsen lét af embætti 1932 var í fyrsta sinn valinn flokkspólitískur borgarstjóri, Jón Þorláksson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. Fulltrúar þess flokks áttu eftir að sitja óslitið á borgarstjórastóli til ársins 1978 og aftur 1982–1994, 2006–2007 og 2008–2010.

Hér er ekki ætlunin að rekja sögu borgarstjórnar en fyrirkomulagið sem viðhaft var 1920 og 1926 er athyglisvert og á sér ýmsar hliðstæður í nágrannalöndunum á okkar tímum. Í reynd er vel viðeigandi að borgarstjóri sé kosinn í almennri atkvæðagreiðslu. Valdheimildir hans eru af öðrum toga en ráðherra til að mynda. Ráðherrann fer með áhrifavald, markar stefnu í málaflokkum en borgarstjórinn er eiginlegur framkvæmdastjóri í fyrirtæki sem þannig vill til að er stærsta fyrirtæki landsins.

Ef sú leið yrði endurvakin að kjósa borgarstjóra í almennri atkvæðagreiðslu væri kannski líka viðeigandi að hann yrði valinn til sex ára líkt og tíðkaðist fyrr á árum. Borgarstjóri hefði þannig rýmri tíma til að fylgja eftir eigin stefnumörkun en vitaskuld yrði hann að eiga náið samstarf við borgarstjórn.

Borgarstjórn er of fjölmenn

Og já — borgarstjórnin er orðin alltof fjölmenn. Fjölgun borgarfulltrúanna var á sínum tíma rökstudd með vísan til þess að bæjarstjórnir í sveitarfélögum á stærð við Reykjavík á hinum Norðurlöndunum væru fjölmennari. Það er alveg rétt en þá er ekki tekið með í reikninginn að fjölmennar sveitarstjórnarsamkundur nágrannalandanna hafa ekki alltaf eins virkt hlutverk og borgarstjórn Reykjavíkur — þetta eru í mörgum tilfellum eins konar íbúaþing. Og ekki má gleyma þeirri staðreynd að sveitarfélögin á hinum Norðurlöndunum verja að meðaltali um 60–70% af útgjöldum hins opinbera meðan það hlutfall er um 35% hér á landi.

Þá hefur sú undarlega breyting átt sér stað í Reykjavík að allir borgarfulltrúar eru í fullu starfi sem slíkir en lengst af var aðeins um hlutastarf að ræða. Ég leyfi mér að fullyrða að borgarstjórn Reykjavíkur hafi verið umtalsvert betur skipuð á árum áður — fólki sem hafði víðtæka skírskotun og hafði áunnið sér traust, hvert á sínu sviði. Mér verður í þessu sambandi hugsað til Páls heitins Gíslasonar sem ég kynntist vel. Hann var samhliða störfum í borgarstjórn afkastamikill yfirlæknir á Landsspítala og sinnti félagsstörfum af miklum móð. Páll kom meiru í verk á vettvangi borgarstjórnar en flest það fólk sem nú situr þar í fullu starfi og karpar á fundum fram eftir nóttu (þ.e.a.s. þeir sem mæta á fundi).

Í reynd hefði verið mun heppilegra að fækka borgarfulltrúum — færa tölu þeirra til dæmis niður í níu — það hefði alltént skapað bætt starfsskilyrði þessa stjórnvalds. Þegar borgarstjórn fundaði hér á árum áður í Kaupþingssalnum í risi Eimskipsafélagshússins var setið við langt fundarborð — enda er um stjórn bæjarfélags að ræða — ekki íbúaþing.

Endurhugsa þarf sveitarstjórnarstigið

En svo ég víki aftur að því sem ég nefndi hér í upphafi þá þyrfti að koma á sameiginlegri stjórn höfuðborgarsvæðisins um þau málefni er varða svæðið allt — atvinnuuppbyggingu, heildarskipulag, aðalstofnbrautir, almannasamgöngur, hafnarmál og fleira. Ýmis önnur mál er betra að sinnt sé í smærri stjórnsýslueiningum. Að því leytinu til væri á ýmsan hátt hentugra að innan núverandi lögsagnarumdæmis Reykjavíkur yrðu fleiri bæjarfélög.

Þannig mætti auka valddreifingu og um leið skilvirkni. Og til að efla lýðræði mætti hugsa sér að efna til „borgarþings“ reglulega — til dæmis árlega eða tvisvar á ári þar sem fulltrúar allra bæjarfélaganna sem heyrðu undir yfirborgarstjórn kæmu saman til stefnumótunar.

Þessar hugmyndir eru fjarri því allar hugsaðar til þrautar en vonandi innlegg í umræður um breytt fyrirkomulag sveitarstjórnarmála sem tæki betur mið af þeim tímum sem við lifum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
01.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
31.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
26.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
25.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!