Stjarnan tók á móti Fram í Bestu deild karla í dag.
Fyrir leik var Stjarnan með sjö stig eftir þrjá leiki. Liðið vann magnaðan 5-4 sigur á Víkingum í síðustu umferð. Framarar voru með eitt stig eftir jafnmarga leiki.
Gestirnir áttu góðan fyrri hálfleik og leiddu eftir hann með einu marki gegn engu. Mark þeirra skoraði Guðmundur Magnússon á 27. mínútu.
Stjörnumenn komu öflugri til leiks í seinni hálfleik og uppskáru mark þegar rúmar 20 mínútur lifðu leiks. Emil Atlason skoraði þá með skalla eftir aukaspyrnu Jóhanns Árna Gunnarssonar.
Bæði lið fengu færi til að skora í lok leiks en allt kom fyrir ekki, lokatölur 1-1.
Stjarnan er í fjórða sæti með átta stig. Fram er í því tíunda með tvö stig.