Fjórum leikjum lauk nýlega í ensku úrvalsdeildinni.
Á Stamford Bridge tók Chelsea á móti Wolves.
Markalaust var eftir fyrri hálfleikinn. Heimamenn fengu vítaspyrnu eftir um tíu mínútur af seinni hálfleiknum og skoraði Romelu Lukaku úr henni. Hann var aftur á ferðinni með annað mark Chelsea örskömmu síðar.
Útlitið var gott fyrir Chelsea en á 79. mínútu minnkaði Trincao muninn fyrir Wolves. Á sjöundu mínútu uppbótartíma jafnaði Conor Coady svo fyrir gestina. Lokaniðurstaðan 2-2.
Chelsea er í þriðja sæti deildarinnar með 67 stig, 4 stigum á undan Arsenal og 6 stigum á undan Tottenham. Síðastnefndu liðin eiga þó bæði leik til góða á Chelsea.
Aston Villa heimsótti þá Burnley og vann góðan sigur.
Danny Ings kom þeim yfir á 7. mínútu og Emi Buendia bætti við marki eftir rúman hálftíma leik. Staðan í hálfleik var 0-2.
Ollie Watkins kom Villa í 0-3 snemma í seinni hálfleik en Maxwel Cornet minnkaði muninn fyrir Burnley í uppbótartíma.
Villa er í ellefta sæti með 43 stig. Burnley er með 34 stig í sextánda sæti, 2 stigum á undan Everton sem er í því átjánda. Síðarnefnda liðið á þó tvo leiki til góða.
Brentford vann þægilegan 3-0 sigur á Southampton.
Pontus Jansson og Yoane Wissa komu þeim í 2-0 með stuttu millibili eftir tæpan stundarfjórðung. Kristoffer Ajer bætti við þriðja markinu á 79. mínútu.
Brentford er í tólfta sæti með 43 stig, 3 stigum á undan Southampton sem er í fimmtánda sæti.
Loks vann Crystal Palace 1-0 sigur á Watford.
Wilfried Zaha gerði eina mark leiksins úr vítapsyrnu eftir rúman hálftíma leik.
Palace er í níunda sæti með 44 stig. Watford er í nítjánda sæti með 22 stig og er fallið úr ensku úrvalsdeildinni.